Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ofurlítill pirringur

Í vor fluttum við hjónin símaþjónustu okkar frá Vodafone til Tals. Ég er mikið að hugsa um að nota búferlaflutningana og flytja símann aftur því ég hef barasta aldrei kynnst öðrum eins klúðrurum og Talsmönnum. Ég bað um að síminn og nettengingin yrðu flutt þann 20. október. Tveimur dögum síðar var heimasíminn kominn og allir glaðir. Netið er hins vegar ekki komið enn og bólar ekki á því. Við hringdum viku síðar og var þá sagt að netið myndi detta inn þá og þegar. Mikil hundakæti greip svo heimilisfólk þegar ég fékk SMS frá Tali fyrir tveimur dögum þar sem tilkynnt var að nú væri Netið komið og ég gæti tengt mig. Við hlupum að tölvunum en ekkert gerðist. Á skjáinn komu leiðinda tilkynningar um að netforritið gæti ekki tengst síðunni sem beðið var um. Enn og aftur var hringt og þá kom í ljós að tengingin var vitlaus. Ég spurði hvort jafnlangan tíma tæki að leiðrétta tenginguna og tekið hafði að tengja hana rangt og fékk þau svör að þetta væri alveg að koma og myndi detta inn þá og þegar. Síðan bætti starfsmaðurinn við: „Það getur alltaf komið fyrir að menn tengi vitlaust.“ Þakka þér fyrir að benda mér á hið augljósa. Mér hefði að sjálfsögðu aldrei dottið það í hug af sjálfsdáðun. En sem sé, tveir dagar liðnir og enn ekkert net. Bloggvinir góðir, ég laumast á bloggið í vinnunni ef dauð stund gefst en þar fyrir utan eru mér allar bjargir bannaðar.


Hamstrar og aðrir

Maðurinn minn er hamstur í eðli sínu. Það kom berlega í ljós í flutningunum þegar ég vildi henda og henda og gefa í Rauða Krossinn en hann hljóp á eftir hverju skriflinu á fætur öðru og dró það miskunnarlaust í búið aftur. Nú eru allar geymslur í nýja húsinu að verða fullar svo út af flóir af hlutum sem hann er viss um að ég muni einhvern tíma þarfnast eða börnin mín þrá heitar en nokkuð annað áður en yfir lýkur. Seint verður víst hægt að fá hamsturinn til að breyta kinnapokunum þannig að smátt og smátt munu sumir af þessum hlutum hverfa á meðan hann er úti á sjó.

Af hórum og mónum

Einn lausapenninn minn sendi mér grein í dag þar sem talað var um hórmóna. Það rann upp fyrir mér nýtt ljós þegar ég las þetta því nú vitum hvers vegna hlutirnir gerast, auðvitað er allt helv. hórmónunum að kenna.

Gott ráð

Í umræðum að undanförnu hefur komið fram að um það bil tuttugu menn hafi grætt óheyrilega á íslensku útrásinni. Við höfum séð myndir af sumarhöllum þeirra víða um land, snekkju með sérhönnuðum innréttingum, þyrlum, þotum og fleiru. Mér var að detta í hug hvort ekki væri ráð að skylda hvern og einn þessara manna til að skila svona 300 milljónum í löndum og lausum aurum. Peningana mætti setja í sjóð og úthluta síðan úr honum til þeirra sem verst eru staddir t.d. til fólks með lítil börn sem er að sligast undan húsnæðislánum, atvinnulausra bankastarfsmanna og annarra sem eiga um sárt að binda.


Frábær Egill Helga.

Mikið var ég ánægð með Egil Helgason í Silfrinu í gær. Hann spurði einmitt þeirra spurninga sem ég vildi fá svör við. Það sló mig hins vegar að þegar Egill spurði Jón Ásgeir hvort hann væri ekki tilbúinn að leggja 100 miljóna íbúð sína í New York, snekkju og þotu inn hjá íslenska ríkinu til að bæta upp eitthvað af þeim fjármunum sem hafa tapast svaraði Jón Ásgeir því til að sagan myndi dæma hann og aðra útrásarvíkinga og leiða í ljós hvort nauðsynlegt hefði verið að yfirtaka Glitni. Ég velti því fyrir mér hvort dómur sögunnar yrði ekki mildari gagnvart Jóni Ásgeiri hvernig sem allt hitt mun metið ef hann skilar verðmætum af fúsum og frjálsum vilja.

Traust og vantraust

Við Magga systir fórum með mömmu á listsýningu í Gerðarsafni í gær. Þar eru nú til sýnis frábærlega fallegir listmunir frá Ekvador og hluti þeirra til sölu. Mitt í hruninu féllum við í þá freistni að kaupa glaðlegar og gullfallegar myndir frá þessu merkilega Suður-Ameríkuríki. Á leið heim til mín aftur sagði mamma: „Heyriði stelpur, við fengum enga kvittun fyrir kaupunum. Verðum við ekki að snúa við og fá eitthvað slíkt?“ „Nei, mamma mín,“ svaraði Magga. „Þetta er stofnun sem við getum treyst. Þetta er ekki banki.“

Arðbær endurvinnsla

Maðurinn minn mætti í vinnuna til mín áðan og bauð mér og samstarfsfélögunum sælgæti upp úr dós. Við spurðum hann hvað þetta væri og svarið var: Endurunninn hlutabréf með lakkrísbragði. Þessi ljósu eru Glitnir en þau dökku Landsbankinn. Ekki ónýtt að eiga svona útsjónarsaman mann í kreppunni. Stofnum bara um þetta fjölskyldufyrirtæki og endurvinnum á fullu í bílskúrnum. Hægt að bæta við ótalbragðtegundum.

Að vera eða ekki vera?

Já, það er og verður alltaf spurningin hvort menn eigi að aðhafast eða ekki og ætli sú spurning sé ekki áleitnari en ella þessa dagana hér á landi. Það er ljóst að fjöldi fólks hefur tapað því fé sem það lagði í hlutabréf í bönkunum. Hugsanlega hrynja fleiri fyrirtæki og sjóðir í kjölfarið og enn fleiri sjá að baki peningum sem þeir vildu ávaxta. Pétur Blöndal ráðleggur fólki að leita ekki að sökudólgum en ég vil gjarnan sjá að þeir sem auðguðust á þessu ævintýri meðan það var og hét sýni samfélagslega ábyrgð í verki og leggi fram eitthvað af milljónunum og milljörðunum sem þeir voru metnir á fyrir örfáum mánuðum. Eitthvað af þessu er bundið í eignum og því er hægt að skila. Hannes Hólmsteinn segir að skilja beri á milli kapítalista og kapítalisma. Mér er það ómögulegt. Kapítalismi er hugmyndafræði sem byggir á því að menn sjái sér hag í að eiga sem mest og vegna þess að finni þeir fyrir ábyrgð og fari vel með eignir sínar. Þetta hefur nefnilega gersamlega afsannast. Þegar menn komast að fullum potti af kjöti mun stór hluti þeirra éta þar til ekkert er eftir og ekki sjá um að geyma neitt til næsta dags. Hugmyndafræði kapítalismans hefur því beðið skipbrot rétt eins og Sovíetríkin sönnuðu að samfélag þar sem allir eiga allt og enginn neitt ganga ekki fyllilega upp heldur. Hugsjónir þær sem þessar samfélagsímyndir byggðu á eru hins vegar fallegar og hugmyndafræðin að mörgu leyti vel útfærð. Ef einhver lexía felst í þessu öllu þá er hún sú að samfélagið verður ávallt að mynda ramma og setja skorður, líka frelsinu til að græða.

Líf í kössum

Við hjónin bíðum eftir að fá afhent hús sem við vorum að kaupa en aðeins er hálfur mánuður í að við flytjum. Við búum því í kössum í augnablikinu og búið að pakka öllu því sem hægt er og koma kössunum fyrir á vörubrettum í bílskúrnum. Alveg er það með ólíkindum furðulegt hvað mig bráðvantar alltaf einhvern hlut um leið og ég er búin að pakka honum niður. Meira að segja dót sem ég hef ekki notað árum saman verður allt í einu alveg ómissandi við eitthvert tækifæri um leið og það er komið í kassa. Þetta er hreinlega ekki einleikið.

Hvar eru frjálshyggjupostularnir nú?

Hrun markaðanna um allan heim hefur fært okkur heim sanninn um að þjóðskipulag byggt á frjálshyggju er ekki það besta. Frjálshyggjupostularnir sem hlökkuðu yfir líki kommúnismans á sínum tíma og fullyrtu að sameignar- og samábyrgðarþjóðskipulag gengi ekki vegna þess að það væri andstætt eðli mannsins eru undarlega þögulir nú. Skipbrot græðginnar er sem sé ekki eins áhugavert og skipbrot mannúðarinnar. Því þrátt fyrir hið meingallaða þjóðskipulag Sovíetríkjanna er mannúð kjarninn í hugsjón kommúnismans og félagshyggjunnar. Ef græðgin er svona eðlislæg manninum ber okkur þá ekki skylda til að hemja hana og leggja í bönd? Alls staðar heyrast raddir sem segja að Glitnismálið sé aðeins byrjunin, bráðum taki dómínókubbarnir að falla hver af öðrum og Kaupþing og Landsbankinn riði til falls. Skattborgarar þessa lands verða látnir borga brúsánn á  einn eða annan hátt. Enginn bankastjóranna sem þáði hundruð milljóna í laun árlega hefur boðist til að borga til baka eitthvað af gróðanum. Miðstéttarfólkið með meðallaunin er ekki ofgott til að taka á sig byrðar að ekki sé talað um hina sem minna hafa. Ríkið hefði aldrei átt að selja bankana og ef meiri félagshyggja og jafnaðarstefna hefði ríkt hér undanfarna áratugi væri ekki svona komið í efnahagslífinu. Það er staðreynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband