Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Moldarbrúnn hundur og þrautfúl kona

Ég gekk á Úlfarsfellið með Freyju á sunnudagskvöldið. Allt var þurrt og þokkalegt og ég skemmti mér hið besta allt þar til við vorum nánast komnar niður.  Tíkin var laus því lítið var um mannaferðir á fjallinu og skondraðist við hlið mér og á undan mér. Skyndilega sé ég hvar tíkin stoppar á brekkubrún, sperrir eyrun og er mjög spennt í útliti. Ég hélt að þarna hlyti að vera annar hundur á ferð svo ég flýtti mér af stað til hennar og kallaði. Hún sinnti því í engu en hentist af stað og beint ofan í moldug hjólför sem voru full af drullu. Þar óð hún fram og aftur hin hamingjusamasta á svip og fékk greinilega mikið út úr þessu leirbaði. Ég gargaði hins vegar á hana að koma sér þarna upp úr og það strax. Sú gula hlustaði ekkert á mig og tók sinn tíma í baðið. Það var skolbrúnn hundur sem hvergi var hægt að koma við sem fór upp í bílinn minn að fjallgöngu lokinni. Svo maður taki nú undir með Viktoríu heitinni Bretadrottningu þá var oss ekki skemmt. 

Forríki frændi!

Elskurnar mínar, vitiði bara hvað? Ég er milljónamæringur. Frændi minn Lucas Steinarsdóttir lést af völdum hjartaáfalls í einhverju arabalandi. Mjög traustvekjandi lögfræðingur þaðan hafði samband við mig í morgun og lét mig vita af milljónum sem sætu ósnertar á bankareikningi hans og biðu þess nánast ættingi færi fram á að fá aðgang að þeim. Ég kannast reyndar ekki við Lucas Steinarsdóttur úr minni nánustu fjölskyldu en hef ekki farið inn á Íslendingabók til að leita. Auk þess finnst mér að maður ekki að spyrja of margra spurninga þegar gæfan bankar svona óvænt og hastarlega að dyrum. Þegar ég verð búin að fá milljónirnar lofa ég að styrkja góð málefni hér á Íslandi og vini mína á alla lund. Svo ætla ég auðvitað að beita mér fyrir friði í heiminum.

Játningar bókaormsins

Þennan pistill minn rakst ég á nýlega en hann birtist í Vikunni fyrir einhverjum árum. Ég ákvað að eiga hann með ykkur.

Ég er fíkill. Það er ekki auðvelt fyrir mig að játa þessi ósköp en ég er bókstaflega sjúk í bækur. Það tók mig langan tíma að viðurkenna að ég ætti við alvarlegan vanda að stríða en þannig er það, ég bókstaflega verð að hafa eitthvað að lesa. Komi það fyrir að mér láist af einhverjum ástæðum að sjá til þess að ólesin bók sé á náttborðinu mínu á ég það til að sækja kornflekspakka og lesa á hann fremur en að lesa ekki neitt. Eitt sinn var ég svo langt leidd af bókaleysi að ég las utan á sjampóflöskur og tannkremstúpur og get nú sagt ykkur ýmislegt um flúor og efnainnihald venjulegrar hársápu.  Fyrstu árin okkar í hjónabandi kvartaði eiginmaður minn jafnan undan því að opnaði ég bók hyrfi ég honum yfir í annan heim. Hann hafði rétt fyrir sér. Þegar ég kemst í góða bók sem fangar huga minn hverfur umhverfið mér gersamlega. Ég fann hvernig lestin braut og marði bein Önnu Karenínu og tárin láku niður kinnar mér þegar Ragnheiður Brynjólfsdóttir lá banaleguna í Skálholti. Börnin mín voru fljót að læra það eins og börn annarra fíkla að ef mamma væri með bók væri ekki á hana að treysta.  

Ef ég kemst í vel skrifaða spennandi bók get ég ekki hætt að lesa. Þá skiptir engu hvort vinnan bíður daginn eftir eða fjölskylda og heimili, ég hætti ekki fyrr en ég get lokað bókinni með feginsstunu yfir að vita hver endalok sögupersónanna urðu. Þær eru orðnar margar andvökunæturnar sem ég hef átt til að geta klárað bók sem ég hef ekki getað hugsað mér að láta frá mér án þess að vita sögulok. Og svo eru það bækurnar sem ég les mér til sáluhjálpar minnst einu sinni á ári. Þeirra í meðal eru: Njála, Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, A Prayer for Owen Meany eftir John Irving, The World According to Garp eftir sama höfund, To Kill a Mocking Bird eftir Harper Lee, Skálholt eftir Guðmund Kamban og Góði dátinn Sveik eftir Jaroslav Hasek. En það bætist alltaf í þennan flokk því alltaf er verið að gefa út nýjar bækur sem eru jafn frábærar og hinar fyrri. Ég man í fljótu bragði eftir: Vetrarferðinni eftir Ólaf Gunnarsson, Memories of a Geisha eftir Arthur Golden og Alias Grace eftir Margaret Atwood.

  Hugleiðsla við lestur

En það eru til svo margar góðar bækur í heiminum og ég kemst aldrei yfir að lesa þær allar. Sú hugsun veldur mér meiri sársauka en nokkuð annað og ég gæti grátið höfugri tárum en þeim sem streyma niður kinnarnar þegar einhver minna uppáhaldssöguhetja lendir í vandræðum. Rithöfundurinn, húmoristinn og lífskúnstnerinn frábæri Kurt Vonnegut er mér sammála. Í sjálfsævisögu sinni segir hann frá því þegar sonur hans, hálfsturlaður af fíkniefnaneyslu, svipti sig lífi. Þau hjónin voru bókstaflega sundurtætt af sorg á eftir og vissu varla hvert þau áttu að snúa sér. Þau reyndu þó að sækja námskeið í hugleiðslu sem þeim hafði verið sagt að hefði reynst mörgum vel til að takast á við sorg. Í fyrsta fyrirlestrinum sagði leiðbeinandinn þeim að þau ættu að reyna að ferðast í huganum til annars lands eða annars heims þar sem þau gætu gleymt öllum áhyggjum sem hrjáðu þau hér og verið í einhverjar mínútur laus undan öllum þeim ama sem veröldin hefði lagt þeim á herðar. „Þá gerði ég mér grein fyrir," segir Kurt, „að ég hef allt frá barnæsku stundað djúpa hugleiðslu í hvert skipti sem ég tek upp bók."  Ég er honum hjartanlega sammála og hef allt frá því að ég las þessi orð sagt börnunum mínum að ég þurfi tíma til að hugleiða þegar ég loka mig af með góða bók í klukkutíma eða svo. En hvaðan kemur þessi sýki? Líkt og alkóhólismi eða önnur fíkn er þetta vafalaust arfgengt eða henni mömmu að kenna. Allt frá því að Freud var og hét hafa kenningar hans verið notaðar til þess að afsaka margt illt hjá fullorðnum einstaklingum og til að segja að margt illt megi rekja til þess að mæðurnar hafi verið gallagripir. Þegar ég var bara smábarn man ég að mamma mín sat inni í stofu og las ljóð upphátt sér til ánægju. Það var hennar aðferð til að slaka á eftir að hafa slegist við fimm miserfiðar telpur á öllum aldri, þrifið undan þeim öllum og eldað ofan í þær án þess að fá nokkrar þakkir fyrir. Ég man enn hversu rödd hennar breyttist þegar hún las ljóðin, hún varð hljómfegurri, fyllri og mun glaðlegri en rödd konunnar sem sagði mér að ganga frá skónum. Ég faldi mig oft undir borðstofuborðinu heima til að hlusta á mömmu lesa. Oft þurfti ég þó ekki að fela mig því hún las óbeðin fyrir okkur systurnar heilu bókaflokkana allt þar til við lærðum að lesa sjálfar. Ég get trúað hverjum sem er fyrir því að það var ekki nærri eins gaman að gráta yfir örlögum Bláskjás litla, eftir að ég gat sjálf lesið mér til um þau, eins og þegar mamma tók mig í fangið og þurrkaði burtu tárin jafnóðum og ég heyrði um það hvernig ræningjarnir misþyrmdu hjálparvana börnunum.  Mamma las ekki bara fyrir okkur heldur sagði hún okkur líka sögur af sjálfri sér og öðrum og það var ekki síðra. Hún kunni svo sannarlega að segja frá, hún mamma, en vegna þess að allt illt sem hendir börnin er ævinlega mæðrunum að kenna segi ég að fíkn mín sé öll tilkomin vegna mömmu. Hefði hún ekki haft svo fallega rödd, lesið svona vel og haft svona frábæra frásagnargáfu hefði ég alveg getað látið bækurnar í friði. Í sögunni um Gilitrutt er sagt frá húsfreyju sem elskaði bækur svo heitt að hún drýgði þá ófyrirgefanlegu synd að liggja uppi í rúmi og lesa fremur en að sinna búi sínu. Fortölur bónda hennar komu fyrir ekki en þegar stórskorin kona bauðst til að sinna verkum hennar gegn því að hún fengi í laun það sem húsfreyja bar undir belti var hún fljót að þiggja það. Undir belti húsfreyju var að sjálfsögðu barn og mikilli ógæfu var afstýrt aðeins vegna þess að húsfreyja gat samið við kerlu um að giskaði hún rétt á nafn hennar fengi hún að halda barninu. Þegar neyðin var stærst hafði hún vit á að trúa bónda sínum fyrir vandanum og hann heyrði, þegar hann lagðist fyrir undir hól einum, kveðið í hólnum: „Húsfreyja veit ekki hvað ég heiti, Gilitrutt heiti ég!" Ég þjáist hins vegar af efasemdum um það að ég hefði vit á að trúa skynsemdarmanninum bónda mínum fyrir því að ég hefði gert slíkan samning ef ég kæmist í góða bók um svipað leyti. (Sama lögmál kemur fram í sögunni um Finn, kirkjusmiðinn á Reyn, nema að þá heyrir bóndi kveðið í hólnum: „Senn kemur hann Finnur, faðir þinn frá Reyn, með þinn litla leiksvein.“) Jesús minn, þá man ég að ég las allar þjóðsögurnar meðan grauturinn brann við og börnin vöfruðu milli polla og skurða í stórhættu.


Bækur og andleysi

Mikið og lamandi andleysi hefur hrjáð mig að undanförnu og það þrátt fyrir mjög innblásna og stórskemmtilega heimsókn í Himnaríki um síðustu helgi. Himnaríkisfrúin var í sínu besta formi, á flókaskóm og með veraldrarrýnigleraugun. En svona er þetta meira að segja ferlegustu kjaftöskum getur sem sé vafist tunga um tönn. Allt um það. Ég var sem sé að ljúka við Kuðungakrabbana sem er vel skrifuð og áhugaverð bók. Þetta er framhald af Berlínaröspunum og nú bíð ég eiginlega spennt eftir næstu bók því þessi endaði þannig að maður vill gjarnan vita meira. Nú er ég að lesa Laxveiðar í Jemen og skemmti mér konunglega. Sú bók er skrifuð á frumlegan og skemmtilegan en þetta eru bréf, dagbókarbrot, tölvupóstar og útdrættir úr skýrslum sem saman mynda fyndna sögu.l


Hraðlestur er ekki alltaf til góðs

Ég var að ljúka við þá stórfínu bók Kuðungakrabbana í gærkvöldi og las síðustu blaðsíðurnar kannski svolítið hratt. Á einum stað var talað um róna í kirkjuskipinu og ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum menn fjarlægðu ekki rónann úr kirkjunni. Þar fyndist mér hann ekki eiga heima. Það var ekki fyrr en eftir tvær blaðsíður í viðbót að ég áttaði mig á því að þarna var verið að tala um ró þ.e.a.s. frið. Á greinilega ekkert erindi á hraðlestrarnámskeið.

Skrýtin hugsun

Samkvæmt Magnúsi Þór Hafsteinssyni er sveitarfélagið á Akranesi svo illa statt að það getur ekki tekið á móti nokkrum palestínskum mæðrum sem þurft hafa að flýja ofríki Ísraelsmanna. Ef farið er inn á þessa síðuhttp://www.imemc.org/article/47404 má lesa um ástandið í al Waleed-búðunum og þær hörmungar sem konurnar þurfa að þola. En sennilega eru til Skagamenn sem líka hafa það skítt og hvers vegna þá að rétta fram hjálparhönd? Ef einhver hefur efast um í hverju stefna frjálslynda flokksins í innflytendamálum er fólgin þá hefur Magnús nú tekið af allan vafa.

Hversdagsgæði og veislugrimmd

Einu sinni heyrði ég sagt af því að kona sem var að undirbúa gullbrúðkaup sitt hefði verið spurð að því hvað væri svo gott við eiginmann hennar að það gerði að verkum að samband þeirra hefði enst svo vel. Hún svaraði: Hann Jón minn er veislugrimmur en hversdagsgóður. Hún átti við það að karl hennar fór yfirleitt með veggjum í veislum, leiddist þær og vildi fremur halda sig heima en blanda sér í glaum og gleði nágrannanna. Heima fyrir var hann svo eins og hún lýsti hversdagsgóður. Mér hefur alltaf fundist þetta frábær mannlýsing og held að hversdagsgóðir menn séu mun betri en þeir sem njóta sín í veislum og á mannamótum en eru hálffúlir og leiðinlegir heima fyrir.

Vinsældir og raunveruleikaþættir

Raunveruleikaþættir þar sem almenningi gefst kostur á að kjósa besta söngvarann, hæfileikaríkasta dansarann eða efnilegasta innanhúsarkitektinn geta verið bráðskemmtilegir en flestir gera sér grein fyrir að það er ekki eingöngu hæfni hvers og eins sem sker úr um í hvaða sæti hann lendir í keppninni. Persónuleiki keppandans hefur mikið að segja. Tekst honum að afla sér vinsælda meðal áhorfenda? Hefur hann útgeislunina sem til þarf? Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á lokaþátt Hæðarinnar. Beggi og Pacas unnu og voru vel að sigrinum komnir. Þeir innréttuðu heimilislegt og fallegt hús og þeir virkuðu vel fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Elísabet og Hreiðar minntu flesta á hinn bóginn alltof illilega á englaparið í skólanum sem sat heima þegar allir aðrir skemmtu sér og hegðuðu sér eins og heimskir unglingar. Hann við að leggja á ráðin um hvernig mætti vera sem ábyggilegastur fjölskyldufaðir en hún við að bæta í safnið í brúðarkistunni, bútasaumsteppum, útsaumuðum skírnarkjólum og dúkum með harðangri og klaustri. Ég efast ekki um að Elísabet og Hreiðar eru besta fólk, húmoristar og bráðfjörug en þau liðu fyrir hversu óþyrmilega þau minntu á ofannefndar steríótýpur. (Eða það er mitt álit. Ég beið eftir að lesa um það í blöðunum að Elísabet hefði keypt sér stálull og ætlaði að prjóna ísskáp í húsið sitt á Hæðinni.) Steinunn og Brynjar virkuðu aftur á móti hræðilega illa. Hún var eitthvað svo óeinlæg eða tilgerðarleg, eins og ein vinkona mín orðaði það. Flestir höfðu á tilfinningunni að hún væri að leika hlutverk ungu, saklausu konunnar sem horfði stóreyg og jákvæð á heiminn. Hann fékk hins vegar alla upp á móti sér með hrokanum. Þau boruðu allar nætur vegna eigin skipulagsleysis og hann gaf svo skít í nágrannana sem voru pirraðir á að fá ekki að sofa fyrir þeim. Allflestir hafa kynnst þessum týpum í fjölbýlishúsum og engin von til að menn kjósi þær til sigurs í keppni. Já, menn verða að vara sig á sjónvarpsvélunum. Þær geta fegrað þig en líka bætt kílóum við galla þína bæði ytri sem innri. En það er gaman að velta fyrir sér svona þáttum og því hvernig sumir kappkosta að sýna sig í sem bestu ljósi en aðrir leyfa áhorfendum að gægjast undir yfirborðið og sjá aðeins í gallana.

Ekki eins málglöð og ég hélt

Ég fór inn á síðu af blogginu hennar Nönnur Rögnavaldar. www.oneplusyou.com og rakst þar á nokkur spennandi persónuleikapróf, m.a. má þar tékka á hversu málglaður bloggari maður er. Ég reyndist mun penni í kjaftavaðlinum en ég hélt því ég var 20% orðfærri en meðalblogger. Því miður get ég ekki fært sönnur á þetta hér því kódar eins og þeir sem gefnir eru upp í þessum prófum virka aldrei rétt hér á blogginu mínu. Ég kópera þá samviskusamlega og skeyti inn í færslurnar mínar en það eina sem birtist eru óskiljanlegar línur af tölum og táknum. Þið verðið bara að trúa mér.


Af harðsperrum og handarmeinum

Ég gekk á Úlfarsfellið um daginn í fyrsta sinn á þessu vori. Líkt og venjulega dróst ég upp síðustu metrana blásandi eins og físibelgur meðan tíkin horfði á mig með samúð sem krydduð var örlítilli fyrirlitningu. Fyrstu fjallagöngunni fylgja jafnan harðsperrur en að þessu sinni voru þær svo magnaðar í framanverðum lærunum að ég gat varla með nokkru móti sest á klósett. Ég varð að sæta lagi og skáskjóta mér niður á setuna með stunum og kvölum og bar mig svo klaufalega að við þessa hreyfingu að ég óttaðist það mest að hitta ekki á klósettið heldur hlunkast með beran botninn á gólfið. Til allrar lukku gerðist það ekki þann tíma sem það tók líkamann að laga vöðvaskemmdirnar en þetta varð til þess að sagan af sveitakonunni mikilvirku rifjaðist upp fyrir mér. Kona þessi er mér og öðrum kunn af því að vera hörkudugleg, afkastamikil og víla fátt fyrir sér. Hún fékk slæmsku í hendurnar sem eingöngu var hægt að laga með uppskurði svo frúin var tilneydd til að halda í kaupstaðaferð til að fá bót meina sinna. Læknirinn spurði hana á hvorri höndinni hún vildi að þeir byrjuðu. Mín svaraði að bragði samkvæm sjálfri sér: „Takið þær báðar í einu þá þarf ég ekki að koma aftur.“ Undarlegur svipur kom á lækninn og hann spurði hvort hún væri alveg viss. Hún hélt það nú og uppskurður var gerður á báðum höndum. Það var hins vegar ekki fyrr en heim kom að hún áttaði sig á því að með báðar hendur í gifsi og umbúðum nýttust þær ekki til daglegra smástarfa eins og þess að skeina sig. Þá þjónustu varð maður hennar að veita. Já, skilvirknin er stundum ofmetin.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband