Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Tungumálaörðugleikar?

Þær systur mínar komum í kaffi í dag og ég nefndi við þær að ég hefði verið við leiðsögn í gær. Aðspurð um hverja ég hefði leiðsagt um landið sagði ég: Æ! það var hellingur af Eistum. Úps! um leið og ég sleppti orðinu var mér ljóst að þetta gat misskilist og ekki hvað síst vegna þess að ég bætti við að mér líkaði sérlega vel við þá. Upp úr þessu spunnust umræður um nöfn og Svava systir trúði okkur fyrir því að þegar hún vann á vegum Nordjobb í Finnlandi forðum daga unnu með henni tvær stúlkur sem hétu Auli og Æla. Svanhildur bætti þá um betur og kvaðst þekkja finnska konu sem héti Meri. Ragnar mágur minn sló hins vegar allt út með að segja sögu af konu sem giftist inn í virðulega gamla evrópska aðalsætt sem auðvitað var hið besta mál að öðru leyti en því að ættarnafnið var Pika og borið fram með í. Ekki gaman fyrir móður að segja frá í veislum: Á morgun kemur dóttir mín, barónessa Píka til Íslands í heimsókn. Einhvern veginn dregur seinni hlutinn verulega úr fínheitum barónessunnar.

Æðruleysi og æruleysi

Við vorum að ræða um útvarpsmenn og hversu misjafnir þeir eru nú hér í vinnunni og þá datt mér í hug saga af þekktri útvarpskonu. Eitt sinn var hún með þátt í vikunni fyrir jólin og hringt var inn. Á línunni var maður sem sagði sínar farir ekki sléttar. Hann var að sjálfsögðu öryrki og illa staddur í lífinu og þennan dag hafði hann haldið af stað í bæinn til að kaupa jólagjafir og týnt veskinu sínu. Líkt og venjulega þegar veski týnast á Íslandi rétt fyrir jólin var aleiga hans í því. Útvarpskonunni gengu raunir mannsins að hjarta og hvað eftir annað æjaði hún og óaði meðan hann sagði söguna. Að lokum kvaddi hún manninn og sendi þessi skilaboð til hlustenda sinna: Ég vona bara að veskið finnist og ég bið skilvísan hlustanda að skila því nú inn. Það er svo agalegt að tapa svona ærunni rétt fyrir jólin.


Heimur versnandi fer

Ég var stödd í verslun hér í heimabæ mínum um daginn þegar karl nokkur vindur sér inn úr dyrunum með límónusúran svip á andlitinu. Umsvifalaust tók hann að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig og afgreiðslustúlkuna og benti á unglingahóp sem stóð fyrir framan verslunina og hallaði sér fram á hrífur, skóflur og önnur garðverkfæri og var að spjalla saman. Þetta fannst honum til marks um að leti hefði aukist til muna í samfélaginu og vinnusiðgæði Íslendinga að engu orðið. Ég hlustaði á manninn svolitla stund og sagði svo: Já, það er verst að galeiðurnar skuli vera aflagðar. Annars hefðu við geta selt allt þetta lið í þrældóm og látið Rómverja um að berja inn í það einhverja hörku. Karlinn starði á mig gapandi en afgreiðslukonan greip andann á lofti og sagði: Nei, segðu þetta ekki. Hugsaðu um aumingja Breiðuvíkurdrengina. Þetta hefur hins vegar orðið til þess að ég velti alvarlega fyrir mér hvort Íslendingar séu hættir að skilja kaldhæðni.

Slegist um krásina

Ég hrökk upp við það klukkan tvö í nótt að tíkin hentist undan rúminu mínu og hljóp á eftir Matta. Við tók gelt og gá, hvæs og dynkir svo ég fór niður til að gá hvað væri að gerast. Matti var þá með fugl í kjaftinum og Freyja var ákveðin í að fá bita af krásinni. Kötturinn Matise er þekktur fyrir flest annað en að gefast auðveldlega upp svo hann æddi um hús með bráð sína í kjaftinum og stökk upp á húsgögn. Þaðan hvæsti hann á hundinn sem flaðraði upp um skápa og eldhúsinnréttingar og gelti. Ég kom svo síðustu sussandi og hvíslandi: Nei, Freyja, nei, þegiðu þetta má ekki. Ekkert sérlega áhrifríkt þegar maður um miðja nótt vill ekki auka enn frekar á skarkalann með því að æpa. Að lokum brá ég á það ráð að grípa tíkina og loka hana inni á geymslugangi. Þar ýlfraði hún, krafsaði í dyrnar og kastaði sér á þær meðan ég elti Matti með það í huga að koma bitbeini þessara tveggja út úr húsinu. Hann var auðvitað ekkert frekar á því að láta mig hafa fuglinn en hundinn svo góður klukkutími leið áður en mér tókst að koma fuglinum í tunnuna og dýrunum í ró. Þá tóku við þrif því húsið var allt út í blóðslettum og fiðri. Ég sofnaði ekki fyrr en um sjö í morgun og treysti mér því ekki í vinnuna. Já, það fylgja því ýmsir ókostir að eiga dýr.

Upp og niður, vestur og norður

Já, mikið skelfing getur það reynt á að vera í sumarfríi en nú er maður að komast í sitt daglega form aftur. Fyrri vikuna í fríinu var ég heima og sinnti alls konar störfum sem legið höfðu á hakanum. Á laugardegi lögðum við hjónin svo á stað vestur á firði. Fyrsta daginn keyrðum við sem leið lá um Barðaströnd og til Breiðavíkur. Þar var vel tekið á móti okkur og við fengum gistingu í notalegum gámi. Enginn Íslendingur getur sennilega ekið að þessum stað án þess að hugsa til Breiðavíkurdrengjanna og þjáninga þeirra. Leiðin liggur upp fjöll og niður brekkur og sennilega hefur barni sem hrifið var frá foreldrum sínum fundist það vera komið á heimsenda þegar Breiðavíkin blasti loksins við. Samt er þetta vinalegur staður. Opin,m breið vík með fallegri hvítri sandströnd. Sólin skein á hafflötin kvöldið sem við keyrðum þarna niður og tjaldstæðið fyrir framan hótelið iðaði af lífi. Við gistum í notalegum gámi en þegar ég gekk inn í húsið fannst mér erfitt að hrista af mér óhugnaðinn. Núverandi gestgjafar hjálpuðu þó sannarlega því þau eru glaðleg, vingjarnleg og þægileg. Um kvöldið fórum við út að Látrabjargi og þar náði ég næstum að snerta lunda. Lofthræðslan kom í veg fyrir að ég þyrði út á bjargbrúnina og prófasturinn var ekki nægilega hrifinn af mér til að vera tilbúinn að ganga til mín. Við gengum líka niður á ströndina í Breiðavík og það var merkilegt að sjá að gráir slípaðir fjörusteinarnir virtust skærbláir í hvítum sandinum þegar miðnætursólin baðaði þá ljósi. Daginn eftir heimsóttu við Minjasafnið að Hnjóti sem var ævintýralega skemmtilegt. Ég dáist að frumkvöðlum eins og Agli Ólafssyni og Þórði í Skógum sem voru nægilega framsýnir til að átta sig á að það gamla drasl sem Íslendingar voru mjög uppteknir af að henda á þeim tíma yrðu seinna menningarsögulegt verðmæti. Þarna eru ótal frábærir munir tengdir sjósókn en líka handavinna hagleikskvenna. Þær hafa verið vanmetnar hingað til að mínu mati en til allrar lukku hafa menn áttað sig á hversu miklir dýrgripir handvinnan er. Það var líka merkilegt að sjá hversu grannar konur hafa verið á árum áður. Það færu ekki margar nútímakonur í þessar flíkur. Eftir að hafa stoppað á Hnjóti ókum við vítt og breitt um Vestfirði, upp og niður fjallvegi meðal annars á eftir útlendingum sem keyrðu á 20 km hraða á klukkustund, frosnir af ótta og þorðu ekki fyrir sitt litla líf að hleypa Íslendingum fram úr. Við enduðum dag númer tvö norður á Ströndum og af því skal ég segja ykkur fleira síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband