Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Heilsuvernd eða hvað?

Að undanförnu hef ég pirrað mig endalaust yfir íslenska heilbrigðiskerfinu. Meðal þess sem mér finnst með eindæmum ergilegt er að talað er um offitu sem faraldur og heilbrigðisstarfsfólk mætir í fjölmiðla og blæs sig út yfir því hversu miklu hættara þeim offeitu sé við ýmsum sjúkdómum. Heilbrigðiskerfið býður þessu fólki hins vegar engin úrræði til að takast á við vanda sinn önnur en þau að taka megrunarpillur sem eru rándýrar og með ótal aukaverkanir og svo skurðaðgerð. Biðlistar eftir að komast á íslenskum heilsuhælum eru mílulangir og þeir sem þangað fara eru aðframkomnir og fárveikir. Af hverju styður heilbrigðiskerfið ekki við fólk með því að koma því annað umhverfi í hálfan mánuð til þrjár vikur þar sem það getur komið sér upp heilbrigðari lífsvenjum og breytt um lífsstíl? Íslenskir læknar bölsótast yfir því sem Jónína Ben. er að gera í Póllandi en mæla sjálfir með skurðaðgerðum sem breyta varanlega allri starfsemi líkamans og þessar aðgerðir hafa verið gerðar tvítugum manneskjum. Óskiljanlegt eða hvað? Heilbrigðisyfirvöld eru líka tilbúin að dæla lyfjum í fólk í ofurskömmtum og endalaust. Fólk fer á einhver lyf og er sagt að það þurfi að taka þau til æviloka því það sé beinlínis hættulegt að taka þau ekki eftir það. Ég þekki konu sem taldi sig fá bót meina sinna með nálarstungum en Tryggingastofnun var ekki tilbúin að borga slíka meðferð. Konan gat hins vegar fengið lyf við sínum vanda sem hafði þær aukaverkanir að hún varð sljó, utan við sig og m.a. ófær um að keyra. Mér er líka minnistæð Anna Pálína Árnadóttir söngkona sem vildi fá TR til að taka þátt í kostnaði við að tattúera augnabrúnir á sig. Það var ekki við það komandi en hún mátti fá hárkollu sem henni fannst óþægilegt að ganga með. Hárkollan kostaði 70.000 kr. en tattúið 22.000 kr. Hvað er verið að hugsa? Af hverju er ekki fyrst og fremst hugsað um að koma fólki til heilsu sama hvaðan eða af hvaða toga sú meðferð er sem hjálpar? Er það nema von að öryrkjum fjölgi á Íslandi.

Hauströkkrið yfir mér

Ætli það sé ekki eitthvert hauströkkur að setjast að í sál minni. Ég hef verið svo andlaus að undanförnu að mér hefur bókstaflega ekki dottið neitt í hug að skrifa um. Í gær brugðum við hjónin okkur hins vegar í göngu um Heiðmörk til að njóta haustlitanna og þar gaf að líta þvílík ókjör af berjum að ég varla séð annað eins. Berin voru auk þess svo stór og safarík að ég gat ekki stillt mig um að tína og tína og háma í mig í gríð og erg. Gummi og tíkin biðu á meðan ég tók verstu græðgisköstin en undir það síðasta voru þau farin að reka á eftir mér og sýna óþolinmæði gagnvart þessu ótrúlega áti. Það hefði nefnilega mátt halda að ég hafi ekki séð mat í fjölda ára. Hugsanlega eru berin í Heiðmörkinni ónýt eftir nóttina í nótt en mér skilst að víða hafi verið frost og héluð jörð  í morgun.

Slóðin hennar Svövu

Reyni aftur að birta slóðina hennar Svövu. http://slartibartfast.blog.is/blog/slartibartfast/

Prófið þetta.


Hrífandi hreinsun og alvarlegt mál

Ég sló persónulegt met í bloggþögn núna. Ég hef sem sé þagað í rúman mánuð, ekki slæmt af kjaftaskjóðu. En nú er sem sé mál að linni. Stórum hluta þessa mánaðar eyddi ég í Póllandi í detox-meðferð undir handleiðslu Jónínu Ben. sem reyndist mér einstaklega vel. Ég léttist um átta kíló og vann upp þrek sem ég sárlega þarfnaðist þannig að maðurinn minn hefur á orði að nú sé ég ofvirk og hann geti hreinlega dregið sig í hlé. Ristilskolunin sem allir eru svo uppteknir af hér heima er lítið brot af þessu prógrammi og ekkert sérlega minnistætt miðað við annað þarna. Þetta hérað í Póllandi er heillandi fallegt og hentar sérlega vel til gönguferða. Ég gekk 8-9 km á dag og hamaðist í leikfimi þess á milli. Mikið rosalega hafði ég gott af þessu. Mataræðið gekk út á að hreinsa út aukefni og ýmiss konar óhollustu sem ég hef gúffað í mig á undanförnum árum og nú er ég eins og nýhreinsaður hundur. En að lokum verð ég að benda á þessa færslu Svövu systur því málið er grafalvarlegt. Slóðin hennar er slartibastfast.blog.is.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband