Þarf að klára bókina?

madame-bovary-183Um daginn deildi Jónína Leósdóttir rithöfundur grein á facebook-síðu sinni þar sem fjallað var um þær fimmtán bækur sem flestir byrja á en klára ekki. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um það viðhorf sem var ríkjandi í mínu uppeldi að allt sem byrjað var á skildi klárað. Þá gilti einu hvort um var að ræða matinn á disknum, húsverk, bókalestur, námskeið eða göngutúr. Ef maður hóf eitthvert verk varð að fylgja því eftir til loka. Fleira varð að gera en gott þótti. Það var ekkert aðalatriði að hlutirnir væru skemmtilegir. Þeir gátu skilað miklu án þess.

Ég veit um ótal bækur sem ég las á unglingsárunum sem ég hefði aldrei klárað hefði ég hafið lesturinn núna. Get til dæmis nefnt Madame Bovary. Sú bók var til í bókasafni heimilisins og einhvern veginn fannst okkur systrum skylda okkar að lesa það allt saman. Ég viðurkenni að ég gerði margar tilraunir að Maddömunni og leiddist hún alltaf jafnmikið en tókst að þræla mér í gegnum hana. Mér fannst Emma og Charles álíka leiðinlegar persónur og var í raun nákvæmlega sama um örlög þeirra en þessu varð að ljúka, ég var jú byrjuð.

Nú veit ég ekki hvort þetta meistaraverk Flauberts myndi höfða til mín ef ég reyndi að lesa það í dag því þannig er það oft. Bók sem eitt sinn var gríðarlegt uppáhald veldur vonbrigðum þegar hún er tekin upp síðar og öfugt. Hið sama gildir án efa um svo ótalmargt annað. Nám sem maður píndi sig í gegnum í menntaskóla í þeim eina tilgangi að ná prófi og passaði sig að gleyma öllu um leið og það var staðið. Verk sem maður tók að sér til afla tekna en kastaði vafalaust höndum til við því það var svo ótrúlega óáhugavert.

MV5BOThlM2M3N2MtN2FjYy00MzUzLTkzNjQtNTlmMmRlM2RlYTM4XkEyXkFqcGdeQXVyNzg5OTk2OA@@._V1_FMjpg_UX1000_Í dag hikar fólk ekki við að leifa matnum sínum þegar það er orðið mett, hætta í námi vegna þess að það höfðar ekki til þeirra, kasta frá sér leiðinlegri bók og láta húsverkin vera ef annað skemmtilegra kallar. Ég veit ekki hvort kvöðin að klára er betri eða heppilegri til að öðlast lífshamingju. Ég man þegar ég las alla Önnu Kareninu að mér fannst Tolstoy ekki færa mér neitt sérstaklega hagnýtan boðskap um lífshamingjuna. Hann sagði jú að allar hamingjusamar fjölskyldur væru eins en um leið sýndi hann fram á að svo var alls ekki. Allar fjölskyldur höfðu sinn skammt af hamingju og óhamingju. En Önnu Kareninu las ég spjaldanna á milli en veit ekki hvort ég hefði mig í gegnum hana í dag svo kannski er ég of smituð af þeirri hugsun að allt þurfi að vera skemmtilegt til að það sé einhvers virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband