Leist vel á viskíflöskuna

FidrildarVera Stanhope yfirlögregluþjónn í Norðymbralandi er lágvaxin, feit en hnífskörp og ótrúlega fljót að sjá í gegnum flóknustu vefi sem morðingjar spinna. Í Fiðrildafangaranum þarf hún ekki bara að takast í við eitt morð heldur tvö. Fyrst finnst lík ungs manns í skurði en þegar farið er inn á dvalarstað hans finnst annar látinn maður og sá hefur verið stunginn.  Veru og samstarfsmanna hennar bíður það erfiða verkefni að finna út hver sá er. Þau Vera, Holly og Joe hafa hvert sína hæfileika og saman eru þau frábært teymi. 

Ann Cleeves er frábær rithöfundur. Henni er einkar lagið að skapa áhugaverðar persónur og að skapa trúverðugt umhverfi. Valley Farm er til að mynda lítið samfélag velstæðra eftirlaunaþega. Gamalt bóndabýli og útihús þess hafa verið gerð upp og þar hafa sest að þrenn hjón. Þau tala um eftirlaunasællífi sitt á þessum fallega stað og þótt hann sé svolítið út úr er ekki annað að sjá á yfirborðinu en að þeim líði öllum vel. En líkt og ævinlega þarf ekki að klóra lengi í yfirborðið til að í ljós komi að margt leynist undir niðri.

Að þessu sinni skiptir höfundur sjónarhorninu stöðugt á milli persóna. Lesandinn fær innsýn inn í líf hinna grunuðu, hinna látnu og rannsóknarlögreglumannanna. Þetta er mjög skemmtilegt og Vera, feitlagin, roskin og meinlaus að sjá er engu að síður bráðskörp, mikill mannþekkjari og frábær greinandi.

Kannski er hluti af því hversu frábærar bækurnar um Veru eru að Ann Cleeves þekkir vel það umhverfi sem hún endurskapar í sögum sínum. Hún er alin upp í sveit, í Herefordskíri og Norður-Devon. Pabbi hennar var kennari og móðirin húsmóðir. Ann gekk í háskóla en hætti áður en hún hafði klárað gráðu. Hún vann við ýmislegt, meðal annars barnavernd og á kvennaathvarfi og kláraði nám sem skilorðfulltrúi. Meðal annars vann hún sem kokkur í Fuglaskoðunarstöð á Fair Isle og þar hitti hún Tim. Hann er fuglafræðingur og var við rannsóknir á eyjunni og þau urðu ástfangin og giftust. Síðar sagði hún að hún hefði heillast af viskíflöskunni sem hún sá gægjast upp úr bakpokanum hans þegar hún vísaði hún til herbergis.

Skömmu eftir að þau giftust var Tim skipaður umsjónarmaður náttúrverndarsvæðis í Dee-óshólmanum. Þar bjuggu þau við mjög frumstæðar aðstæður, ekkert rafmagn, ekkert rennandi vatn í húsinu og aðeins fært upp á meginlandið á fjöru. Þar sem Ann hafði lítinn áhuga á fuglum var ekki margt við að vera þarna fyrir hana svo hún fór að skrifa sér til dægrastyttingar en náttúran sem Hector, faðir Veru, nýtti sér til framfærslu er byggð á þessu umhverfi. Í fyrstu seríunni sem hún skrifaði var rannsakandinn George Palmer-Jones, roskinn náttúrufræðingur en síðar komu þau Vera og Jimmy Perez. Tim, Ann og dætur þeirra tvær búa enn í Norðymbralandi en Ann hefur verið virk í að örva lestraráhuga fólks á Bretlandi með ýmsum hætti, hún hefur unnið með bóksöfnum og farið inn í fangelsi og talað um bækur sínar. Þess má einnig geta að hún og þýðandinn, Snjólaug Bragadóttir, hlutu Ísnálina, íslensku glæpasagnaverðlaunin árið 2017. Hún hefur hlotið fjölmörg önnur verðlaun fyrir bækur sínar og er heiðursdoktor við Háskólann í Sunderland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband