Sokkabuxurnar áspreyjuðu

Stundum sigrar bjartsýnin reynsluna, nokkuð oft reyndar þegar ég á í hlut og sagan af áspreyjuðu sokkabuxunum er sorglegt dæmi um það. Til okkar upp á Viku þegar ég var að vinna þar kom glæsileg ung kona, nýkjörin Ungfrú Ísland, í myndatöku. Hún var með spreybrúsa með sér og úðaði reglulega úr honum á fótleggi sína og mér lék forvitni á að vita hvað þetta væri. Hún sagði þetta algjört galdraefni sem kæmi algjörlega í stað sokkabuxna. Maður spreyjaði bara yfir lappirnar og þær yrðu fallega brúnar en jafnframt myndaðist eins og himna sem gerði þá einkar glæsilega. Ég er alræmdur sokkabuxnamorðingi og kveður svo rammt að þeim ósköpum að aðeins allra þykkustu buxur þeirrar gerðar lifa af kvöldstund með mér. Mér fannst þetta því alveg kjörið fyrir manneskju eins og mig. Hver brúsi entist í fjögur til fimm skipti að sögn fegurðardísarinnar og kostaði eitthvað um 2000 kr. Næst þegar sokkabuxnatilefni var í fjölskyldunni skundaði ég í næsta apótek og keypti sokkabuxnaspreyið góða. Ég stillti mér upp á holinu og byrjaði að úða með sömu tilburðum og hún hafði notað. Sveigði mig og teygði með einkar fallegum og ballettlegum sveiflum. Teygði mig aftur fyrir og út um allt. Síðan leit ég yfir dýrðina. Ég er ákaflega lappalöng og nú litu fæturnir á mér út eins leggir á skjöldóttri kú. Sums staðar var ég dökk, annars staðar ljós og víða voru hvítar skellur. Ég bar mig upp við minn handlagna eiginmann sem löngum hefur reddað brotnum nöglum, hakkavélum með kökugöfflum föstum í og ýmsu fleiru tilfallandi á þessu heimili. Hann var sammála því að svona færi ég ekki úr húsi og mundaði því brúsann og lét vaða. Skemmst er frá því að segja að hann spreyjaði og spreyjaði en alltaf var ég jafnskellótt og skrautleg. Á endanum var ekki tími fyrir fleiri æfingar og að auki ekki meira eftir í brúsanum góða en sem svaraði áspreyjuðum sokkabuxum á mýflugu. Við urðum að fara. Fæturnir á mér voru mattir og stamir svo ég gat ekki gengið öðruvísi en með lærin vel í sundur. (Reynið það á fimm sentímetra háum hælum og í A-pilsi.) Ég sýndi umtalsverða lagni við það en innkoman í veisluna var sannarlega ekki tíguleg. Ég reyndi að laumast inn og gekk eins og ég væri með tunnu í klofinu að næsta sæti. Mér tókst að reka mig utan í mannvesaling á leiðinni og skilja eftir brúna skellu á gallabuxunum hans. (Ávirðing sem ég steinþagði yfir). Síðan settist ég við næsta borð og faldi fæturnar undir síðum dúknum. Þar sat ég allt kvöld háð eiginmanninum um vott og þurrt og þegar ég stóð upp voru lærin traustlega límd saman. Það var ekki gott að slíta þau í sundur en í dag kaupi ég venjulegar sokkabuxur og ríf þær klukkustundu eftir að ég fór í þær. Dreg varabuxurnar upp úr töskunni og sama ferlið hefst á ný.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.6.2008 kl. 19:10

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Einmitt, Jenný...    Yndisleg saga!

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.6.2008 kl. 19:28

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahahah hvað ég þekki þetta ferli......

Hrönn Sigurðardóttir, 14.6.2008 kl. 22:13

4 identicon

  frábært!!! Vonandi þurfti maðurinn ekki að bera þig heim, þar sem fæturnar voru límdar saman og það hefur ekki verið kátt í koti það kvöld......  

alva (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 22:40

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ó, hvað ég þekki þetta. Það er svo undarlegt með mig, og ég  veit svosem ekki hvað segir um mig og mína sköpunarupplifun - eða hvað á að kalla það - að ég fæ alltaf magnaða, yfirþyrmandi köfnunartilfinningu þegar ég fer í þetta kúgunarkvennadæmi sem sokkabuxur eru. Á nokkrar ónotaðar inní skáp, Filodoro og Oroblu og hvað veit ég. Þær bera allar þess merki, að það er búið að reyna að fara í þær meira og minna einusinni, en svo ekki söguna meir. Óguð, óguð, en sú kvöl að vera kona.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 14.6.2008 kl. 22:59

6 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er alveg frábær saga!  Og hvað ég skil þig ! -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 14.6.2008 kl. 23:25

7 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Þú er greinilega sokkabuxnabani eins og ég! Ég er yfirleitt búin að granda sokkabuxum eftir tvö skipti í notkun en sló met í gær þegar mér tókst að rífa glænýjar sokkabuxur, sem kostuðu mig 2.500 krónur, eftir hálftíma! Hefði getað grátið.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 14.6.2008 kl. 23:35

8 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Skil aldrei hvað fallegar og greindar konur geta látið ímyndarsköpun fara illa með sig.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 15.6.2008 kl. 09:03

9 Smámynd: Heiða  Þórðar

Heiða Þórðar, 15.6.2008 kl. 10:27

10 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Hehe já ég hef prófað þetta...

Linda Lea Bogadóttir, 15.6.2008 kl. 13:21

11 Smámynd: Svava S. Steinars

Hehe, er í genunum, ég hef myrt sokkabuxur um leið og ég er að bisa mér í þær.  Aldrei dottið í hug að kaupa áspreyjaðar, enda lítt spennt fyrir að úða einhverju á fæturnar eftir ævintýri mín með kalda vaxið sem límdi saman á mér lappirnar. 

Svava S. Steinars, 15.6.2008 kl. 17:27

12 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Fáðu þér leggings næst. verst að þær eru ekki fyrir leggjalanga allavega ekki þær sem ég hef prufað

Aðalheiður Magnúsdóttir, 15.6.2008 kl. 18:33

13 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Dásamleg saga. Líklega eru rifnar sokkabuxur skárri en þetta spreidrasl, heheheh

Guðríður Haraldsdóttir, 22.6.2008 kl. 16:13

14 Smámynd: Heidi Strand

Skemmtileg saga
.Ég þoli heldur ekki loftþéttar umbúðir á neðra hlut líkamans. Þetta er örugglega ekki gott fyrir konu.  

Heidi Strand, 24.6.2008 kl. 17:10

15 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Frábær saga

Marta B Helgadóttir, 27.6.2008 kl. 13:34

16 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Hahahahaha, skelfileg reynsla, en þó ofurkómísk:)

Skemmtileg frásögn. 

Linda Samsonar Gísladóttir, 27.6.2008 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband