10.3.2023 | 18:27
Hvað segir bókhillan þín um þig?
Á flestum heimilum eru bókasöfn, misstór og fjölbreytt, en engu að síður kjósa flestir að hafa í kringum sig bækur. Þetta eru uppflettirit, uppáhaldsskáldsögur, fallega innbundin ritsöfn, bækur tengdar áhugamálum og ótal margt fleira. En hvernig fólk kýs að raða í bókahilluna er mjög misjafnt og segir margt um viðkomandi.
Sumir raða eftir lit. Allar rauðar bækur saman, þær svörtu á öðrum stað og þannig koll af koll. Ef marka má netið er það skapandi fólk með gott auga fyrir formi og litum. Það hefur einnig gaman af að prófa sig áfram og skoða hlutina frá öllum hliðum.
Þeir sem raða eftir tegundum það er leyfa ljóðabókunum að vera saman, ævisögunum við hlið þeirra og koma svo uppflettiritunum í sérhillu og þar fram eftir götum er fólk með góða rökhugsun, skipulagt og nokkuð formfast.
Þriðja týpan raðar eftir höfundum. Hver og einn fær sitt pláss og stöku höfundarnir raðast saman. Þetta er félagslynt fólk með góða tilfinningagreind. Helst vill það hafa félagsskap í kringum sig og ræða efni bóka sinna við aðra.
Fjórði hópurinn kýs að raða bókum eftir stærð. Þetta er íhaldssamt fólk sem heldur fast í gamlar venjur og siði. Það er almennt ekki tilbúið til að breyta miklu og vill helst hafa hvern dag í föstum skorðum og sína rútínu á hreinu.
Að lokum eru það svo þeir sme raða alla vega. Bækurnar liggja ýmist láréttar eða látnar standa upp á rönd. Hér eru uppreisnarseggir á ferð. Þeir láta ekki segja sér fyrir verkum né hvernig hafa á hlutina. Þeir njóta þess að breyta og upplifa ævintýri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2023 | 18:58
Frægir af endemum
Í framtíðinni verða allir heimsfrægir í fimmtán mínútur, sagði Andy Warhol í viðtali árið 1968. Á meðal okkar eru og verða einstaklingar sem eiga erfitt með að bíða eftir að korterið þeirra renni upp og gera nánast hvað sem er til að tryggja að það lengist nokkuð í annan endann. Ísland er lítið land og þeir sem vilja slá um sig með gífuryrðum eða ganga þvert gegn viðteknum viðhorfum á hverjum tíma geta auðveldlega tryggt sér ekki bara fimmtán mínútna fjölmiðlaathygli heldur hvern hálftímann af öðrum. Gallinn á slíkri frægð er hins vegar sá að hvenær sem er getur hún komið í bakið á manni og bitið illa.
Yfirlýsingar litaðar öfgum og óvenjulegum skoðunum eru oftar en ekki settar fram í þeim tilgangi að ögra og vekja viðbrögð en endurspegla ekki endilega raunverulegar tilfinningar þess sem setur þær fram. Fólk slengir einnig iðulega fram einhverjum staðhæfingum í þeim tilgangi einum að ganga fram af öðrum en hugsa ekki út í að þeir sem á hlýða eiga erfitt með greina hvort hér á ferð bláköld alvara eða yfirdrifin gamanmál.
Í heilræðakafla Hávamála er mönnum ráðlagt að gæta orða sinna. Leggja lítið til málanna ef vitneskja þeirra er takmörkuð um efnið en tjá sig ef þekking þeirra er næg. Þetta eru góð ráð. Þótt mannsævin sé ekki löng breytast aðstæður stundum skjótt og að sama skapi lífsviðhorf, draumar og langanir. Orð og gerðir í hita augnabliksins geta þá orðið að myllusteini um háls manna, steini sem ekki er létt að losna við.
Nektarmyndir, bjórdrykkja og grófyrði
Ungfrú Ameríka mátti til að mynda afsala sér titlinum þegar í ljós kom að hún hafði setið fyrir á nektarmyndum og Herra Ísland var sviptur sínum titli fyrir að hafa í frammi í sjónvarpsþætti hegðun sem ekki þótti til fyrirmyndar. Og þótt himinn og haf séu milli orða og athafna fer ekki hjá því að flestir trúi fremur illu upp á þann sem grófyrtur er og yfirlýsingaglaður en hinn sem fer sér hægar. Allmargir Íslendingar hafa haslað sér völl í fjölmiðlum út á það eitt að skella fram yfirlýsingum. Sumir komast aldrei undan þeirri ímynd jafnvel þótt þeir skipti fullkomlega um gír.
Hugmyndafræðin að baki hegðun af þessu tagi er amerísk að uppruna og er best lýst í slagorði smiðanna sem byggðu hana eða að ekkert umtal sé illt umtal og öll athygli af hinu góða sama að hverju hún beinist. Vandséð hvort Lindsey Lohan, Britney Spears eða Hugh Grant taki undir þá staðhæfingu eftir að hafa reynt hvoru tveggja að vera hampað í fjölmiðlum og vera skotspónar hæðni, vorkunnar og hneykslunar þeirra sömu blaðamanna.
En hvað með þá sem ekki virðast hafa sér neitt annað til ágætis en að vera stórir í kjaftinum og kunna að koma því á framfæri? Það er næsta víst að slæm hegðun fær athygli, þeir félagar í Jackass lifðu á henni en nutu sennilega lítillar virðingar þótt frægir væru. Hið sama má segja um Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann sló gjarnan um sig með yfirdrifnum yfirlýsingum, hrósaði sjálfum sér í hástert en fordæmdi gjarnan þá sem ekki voru á sömu skoðun og hann. Þótt Trump hafi haft fylgi meðal eigin þjóðar naut hann lítillar virðingar þar fyrir utan. Hann var oft borinn saman vð fyrirrennara sinn, Obama, en fágun hans, kurteisi og yfirvegun var viðbrugðið. Það var sama hversu hart var gengið að Obama, hversu óprúttnum meðölum andstæðingar hans beittu, (þar á meðal Trump) hann svaraði ævinlega virðulega en ákveðið. Orð hans höfðu því meira vægi fyrir vikið og það má alveg velta fyrir sér í hvorn muni oftar og lengur vera vitnað og hvor komi betur út þegar mannkynssaga 21 aldar verður rituð.
Það er auðvelt að baða sig í kastljósi fjölmiðlanna um stund ef mönnum er sama hvort þeir klæðist þar dökkum litum eða ljósum. Er athyglin þess virði? Hver og einn einstaklingur verður sennilega að svara því fyrir sig en dæmin sanna að vopnin geta auðveldlega snúist í höndum manna. Ef við víkjum aftur að fornri lífspeki Hávamála þá erum við þar minnt á að orðstír lifir lengur en meðalmaður. Guðinn hái sem þar mælir talar reyndar eingöngu um góðan orðstír en nefnir ekki þann alræmda. Hugsanlega hafa menn ekki verið búnir að uppgötva þá speki bandarísku auglýsingamannanna og þess vegna ekki talið eftirsóknarvert að vera umtalaður fyrir lítið annað en heimsku og oflæti. En þótt ekki sé beinlínis rætt um hið lakara orðspor í þessu gamla kvæði er líklegt að slíkt umtal eigi sér ekki styttri líftíma. Einhvern veginn hefur lesandinn á tilfinningunni við lestur Hávamála að það taki ævina alla að vinna sér inn þann orðstír sem lifa mun manninn. Þeir sem ekki hafa þolinmæði til að byggja hægt og hægt geta farið hina leiðina en þá er líka gott að hafa í huga að það að vera frægur af endemum á sér skuggahlið og enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2023 | 13:53
Brosað út í annað og stundum bæði
Kvíðastráið Hjalti er í leit að friði og huggun. Kærastan er farinn frá honum, hann nær engu sambandi við vini sína lengur og Covid hefur rænt hann lyktar- og bragðskyni. Þegar hann kynnist nágranna sínum Ingimar og í gegnum hann Kakófylkingunni fer loks að rofa til. Rjúkandi kakóbollinn færir Hjalta kærkomna slökun og loksins getur hann sofið. Það er svo mikill léttir að hann tekur skyndiákvörðun um að segja upp íbúðinni, losa sig við allt sitt dót og halda í ferðalag með þessum nýfundnu vinum.
Þetta er í stuttu máli sögurþráðurinn skáldsögurnnar Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur. Guðrún er góður höfundur, stíllinn er léttur og sagan virkilega fyndin á köflum. Henni er einnig lagið að skapa sérstæðar og skemmtilegar persónur og þær eru auðvitað driffjöðurin í atburðarásinni. Hin stjórnsama Hildigunnur, kakógúrúinn, sem veit hvað er lærisveinum sínum fyrir bestu. Ingimar fylgir henni trúfastur en er með eigin ásetning á hreinu. Hán Lára þarfnast þess að vera hluti af einhverju og Sigríður er eins og alfræðiorðabók og hefur þörf fyrir að kenna öðrum. Og svo er það Ragnheiður ofurlítið týnd unglingsstúlka sem þarf hjálp. Saman tjaldar þetta fólk í Skaftafelli í Öræfum og segja má að hver og einn finni sinn sannleika á óvæntan hátt í íslenskri náttúru.
Hér er kaldhæðnin vissulega ráðandi og þótt brugðið sé upp grátbroslegum myndum af ýmsu sem fram fer meðal andlega leitandi fólks í sjálfshjálparhópum er höfundur ekki að dæma. Hún gerir ekki lítið úr viðfangsefninu eða persónum sínum þótt hún vissulega hæðist ofurlítið að þeim á stundum. Enginn skyldi gera of lítið úr áhrifum heitra drykkja. Bretar eiga sinn tebolla, Íslendingar kaffið og hví skyldi hið Suður-Ameríska kakó ekki búa yfir þeim mætti að vísa mönnum veginn.
Guðrún er áhugaverður höfundur og eiginlega aðdáunarvert að hún skuli hafa tíma til að skrifa. Hún er í meistaranámi í íslenskum fræðum, kennir forn-íslensku við Cornell-háskóla og er söngkona. Í Kiljunni nýlega sagðist hún sjálf hafa kynnt sér starfsemi kakóhópa svo hún þekkir bæði bragðið og óbragðið sem Hjalti finnur í bókinni. En ef þið eruð í leit að fyrirtaksafþreyingu og langar að brosa út í annað og stundum bæði er þetta fín bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2023 | 20:02
Þarf að gæta orða sinna?
Mér finnst orðræða í samfélaginu hafa breyst. Allir eru svo meðvitaðir um tjáningarfrelsið og rétt sinn til að hafa skoðanir að það gleymist að með þeim rétti fylgir sú ábyrgð að velja orð sín af kostgæfni og gæta þess að þau særi ekki eða ýti undir hatur og illsku í samfélaginu. Enskt orðtak segir að enginn geti fyllilega skilið annan fyrr en hann hefur gengið mílu í skónum hans. Þetta er góð speki vegna þess að í raun og veru er aldrei hægt að dæma nokkurt líf sé horft á það utan frá.
Þetta er líka svo skynsamlegt að allir finna að það er satt en samt gleymum við þessu reglulega og setjumst í dómarasæti yfir öðrum. Við þykjumst vita betur og skynja hinn eina stóra sannleika eða innstu rök tilverunnar. Auðvitað á þetta að vera svona og engan veginn öðruvísi. Það er sjálfsagt að fólk felli sig í það mót sem okkur finnst hentugast, enda passar það okkur og ætti því að vera fullgott fyrir alla aðra.
En einmitt þar liggur vandinn því þótt hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu ber samt hvert hjarta einstaklingseinkenni. Þess vegna erum við öll jafnólík og fingraför okkar. Við getum því aldrei fullkomlega verið viss um að við höfum allar forsendur til að dæma aðra. Við getum dæmt en aðeins fyrir okkur sjálf, valið og hafnað eingöngu því sem snertir okkar líf. Þær tilfinningar sem bærast innra með hverjum einum eru einstakar og hver einasta manneskja á rétt á að velja sér stað í lífinu, gera upp við sig hvaða kyni hún, hann, kvár eða stálp tilheyrir. hvert hugur hennar hneigist í ástarmálum og hvernig hún kýs að nota líkama sinn og hugarafl. Hið sama gildir um val á lífsstíl, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum eða mataræði.
Hverju skiptir það hvort strákur kyssir strák, kvár eða stálp ef það veitir báðum hamingju? Er ekki nógu erfitt að höndla hamingjuna svona almennt til að við getum fagnað því innilega þegar einhverjum tekst það? Hvers vegna í ósköpunum látum við það ergja okkur að einhver kýs annars konar ástarsælu? Er ekki fjölbreytileikinn einmitt stærsta gæfa mannkynsins?
Umburðarlyndi verður að rækta. Það þarf að sá fræjum og vökva þau reglulega til að tryggja viðgang þessa þáttar í eðlinu. Helsti óvinur umburðarlyndisins er dramb. Sú tilfinning að þú hafir einhvers konar yfirburðastöðu og vitir því betur en samborgarnir. Þegar hrokinn nær yfirhöndinni er ekki von á góðu vegna þess að þá sest einstaklingurinn ekki bara í dómarasætið heldur telur sig þess umkominn að predika og neyða aðra inn á tiltekna braut. Ég hef aldrei getað skilið þá löngun. Frá barnæsku hefur efinn fylgt mér hvert fótspor. Efinn um að ég viti nákvæmlega hvað hentugast er hverju sinni, hafi rétt fyrir mér þegar ég fullyrði eitthvað, að ég sé að vinna verkin á besta mögulega hátt og oft efi um að ég sé að gera mitt besta. Vegna þessa hef ég aldrei verið fyllilega sannfærð um að mínar skoðanir séu þær einu réttu og að aðrir eigi að tileinka sér þær. Mér nægir að vita svona nokkurn veginn frá degi til dags að ég sé að gera það sem ég tel best fyrir sjálfa mig.
Ég leitast líka við að rækta með mér þolinmæði og skilning gagnvart mínum nánustu og vinna að því að styðja þá fremur en að kúga þá til að fara þær leiðir sem ég myndi kjósa þeim til handa. Vegna þess að þetta er heilmikið starf hef ég aldrei hafi tíma til að elta ólar við vandamál konunnar í næsta húsi eða hennar athafnir. Thomas Jefferson sagði að það skipti hann engu hvort nágranni hans héldi einn guð í heiðri eða tuttugu svo lengi sem enginn þeirri tæki upp á að stela frá honum eða fótbrjóta hann. Ég er eiginlega alveg sammála honum. En þótt ég myndi aldrei leggjast jafnlágt og þeir sem kjósa að dreifa hatursáróðri hvort sem það er undir yfirskini skoðana eða húmors verð ég að viðurkenna og senda það héðan út í kosmosið að mín skoðun er sú að gífuryrði skili aldrei árangri. Að forsmá kurteisi og virðingu í mannlegum samskiptum og kalla aðra öllum illum nöfnum sé ekki líklegt til að fá þá á þitt band eða skila þér því sem þú helst vilt ná fram. Þegar sturluðum vitfirringum og fávitum fer að fjölga í kringum þig er held ég komin ástæða til að líta í eigin barm. Who died and made you king? Er annað gott enskt máltæki. Hver skipaði þig í hlutverk siðgæðisvarðar, dómara eða hrópandans í eyðimörkinni sem einn sér hið rétta? Því er vandsvarað í öllum tilfellum. Nelson Mandela og Ghandhi sýndu heiminum fram á að ekki þarf að grípa til vopna eða þess að svívirða andstæðinginn til að ná sigri. Þeir eru að mínu mati fyrirmyndir sem fleiri mættu líta til.
Bloggar | Breytt 2.3.2023 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)