Eldar af ýmsum toga

Eldur er einn af fjórum náttúrulegum frumkröftum, óútreiknanlegur og óhaminn verður hann oft að eyðingarafli sem ekkert getur tafið. En það er líka til huglægir logar. Ófriðareldar eru af ýmsum gerðum og margvíslegum toga en víst er að þeir ýta oftar en ekki af stað ófyrirsjáanlegri atburðarás.

Eldur í bakgarðinum

eldarnir-kiljukapaJörð hefur skolfið og rofnað til skiptis á Reykjanesi síðastliðin þrjú ár og minnt okkur óþyrmilega á að við búum á eldfjallaeyju. En hvað ef neðansjávargos hæfist úti fyrir Keflavík og svo tæki að gjósa á sprungum í Krísuvík og víðar? Einmitt þessari spurningu svarar bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir.

Líkt og segir í sögunni eru Íslendingar merkilega óhræddir við eldgos og náttúruhamfarir. Einhver jarðvísindamaður sagði í viðtali eftir að nýjasta gossprungan opnaðist að ólíkt öðrum þjóðum sem hlypu frá eldgosum hlypu Íslendingar að þeim og það er rétt. Hér rjúka menn upp milli handa og fóta fari að gjósa og keyra á staðinn. Reyna að komast eins nálægt og nokkur kostur er og stökkva jafnvel upp á storknandi hraun rétt við glóandi eimyrjuna. Í bókinni Eldunum veltir Anna Arnardóttir forstöðumaður Jarðvísindastofnunar og aðalsöguhetjan því fyrir sér hvort það geti verið vegna þess að hingað til hafa eldfjöllin okkar verið mild og stillt. Hekla gosið ljúfum túristagosum, Katla varla bært á sér og Eyjafjallajökull truflaði tímabundið flugumferð og spúði ösku yfir nærliggjandi bæi. Enginn dó, engin sveit lagðist í eyði og búfénaði var hlíft. Það er helst í Vestmannaeyjagosinu að ógnin varð áþreifanleg en jafnvel þar fór betur en áhorfðist í fyrstu. 

Já, náttúra landsins er ógnvænleg og miskunnarlaus en það er ástin líka. Hún getur komið aftan að bestu mönnum og konum, ýtt óþyrmilega við þeim og hrundið af stað atburðarrás sem enginn sá fyrir eða ætlaði sér. Anna er vísindamaður, jarðbundin með tröllatrú á rannsóknum og sannreynanlegum staðreyndum. Þegar fréttasnápar, stjórnmálamenn og ljósmyndarar troða sér með henni í könnunarflug yfir neðansjávargosið horfist hún í augu við Tómas Adler í fyrsta sinn. Hann er kominn til að mynda hamfarirnar og þarna rétt við eldingarnar í gosmekkinum kvikna einhverjir neistar. Anna og Tómas verða ástfangin og tilvera Önnu umhverfist, rétt eins og þar hafi orðið hamfarir líka.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir stimplaði sig rækilega inn í íslenska rithöfundastétt með bókinni Eyland. Í fyrra sendi hún svo frá sér sögulega skáldsögu, Hamingja þessa heims, áður voru komnar, Hið heilaga orð og Eyland. Bækur hennar eiga það sameiginlegt að vera framúrstefnulegar, nokkurs konar vísindaskáldsögur. Í Eyland veltir hún fyrir sér hvað muni gerast ef tengsl Íslands við umheiminn rofnuðu, ef eylandið stæði eitt í einangrun sinni úti í Atlantshafi. Hið heilaga orð á hinn bóginn fjallar um bróður í leit að systur sinni. Sú hafði horfið frá ungu barni sínu, farið sjálfviljug upp í flugvél og flogið til Bandaríkjanna. Til að finna hana þarf bróðirinn að gera upp ýmis mál tengd sambandi þeirra og fjölskyldusögu. Bækur Sigríðar eru frumlegar, vel skrifaðar og hverfast um áhugavert fólk. 

Að slökkva elda

Litlir-eldar-kapaÍ Bandaríkjunum tala foreldrar stundum um að uppeldi barna samanstandi af því að vera alltaf að slökkva litla elda. Celeste Ng hendir þennan frasa á lofti og nýtir hann sem umgjörð utan um þemað í bók sinni Litlir eldar alls staðar. Þetta er önnur bók hennar sem gerist í Shaker Hill-hverfinu. Fullkomnu úthverfi efnafólks þar sem reglur um umgengni og siði eru strangar og allir fara eftir þeim. Richardson-fjölskyldan er áreiðanlega sú fullkomnasta í þessari útópíu ef Izzy, yngsta barnið er undanskilin. Elena Richardson á fjögur börn, fullkomið hús, umhyggjusaman eiginmann, gegnir góðri stöðu og er sjálf sem næst sprungulaus, í það minnsta á yfirborðinu. Þegar einstæð móðir og listakona, Mia, flytur inn í leiguíbúð í eigu Elenu kynnist Moody, einn úr barnahópi hennar, Pearl dóttur Miu og það hefur óvænt áhrif á líf þeirra allra. Hér er fjallað um foreldrahlutverkið í víðum skilningi og spurt margra erfiðra spurning. Hvenær velja foreldrar raunverulega það sem er best fyrir börnin? Á einhver rétt á að eignast barn og hver á barn, sá býður því allsnægtir og ást eða hinn sem á ekkert nema ást? Í þessari einstaklega vel skrifuðu og hrífandi sögu er kafað ofan í þetta en einnig tengsl innan fjölskyldna, stöðu barna í systkinahópi og hvernig það er að passa alls ekki inn í hópinn sinn.

Aðrir eldar

26556Harry Potter og eldbikarinn, Eldar kvikna úr þríleiknum um Hungurleikana, Aska Angelu og Farhenheit 451 eru allt dæmi um bækur þar sem eldur leikur eða afleiðingar elda leika hlutverk. Eldurinn er iðulega táknrænn fyrir stríðsátök og illsku. En líka eins og í ösku Angelu fyrir þann hreinsunareld sem fátækt getur verið mannfólkinu. Harry Potter og Hungurleikarnir eru hins vegar frábærar ævintýrabækur, góð afþreying og vel skrifaðar. En á meðan jarðeldar geisa á Reykjanesi getur verið áhugavert að skemmta sér við að lesa um margvíslega aðra elda. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband