7.8.2023 | 20:53
Kúvending á lífinu
Hafi einhver efast um að sá hópur útlendinga sem hingað flytja sé fjölbreyttur hópur er bókin, Þá breyttist allt, eftir þær Margréti Blöndal og Guðríði Haraldsdóttur nauðsynleg lesning. Ellefu manneskjur segja þar sögu sína og rekja ástæður þess að þær völdu að koma til Íslands og setjast að. Allt er þetta hæfileikafólk sem leggur mikið af mörkum til þess samfélags sem það býr í. Sum lögðu á flótta frá stríðsátökum, önnur komu af ævintýraþrá og enn önnur í leit að betra lífi og tækifærum sem ekki gáfust í heimalandinu. Þau eiga það hins vegar sameiginlegt að vera harðdugleg og tilbúin að leggja mikið á sig til að læra tungumálið og öðlast skilning á íslensku þjóðfélagi.
Það er gaman að sjá landið sitt og fólkið með augum nýbúa og stórkostlegt að vita að þau sem þarna tjá sig voru öll svo heppin að mæta velvilja og stuðningi frá þeim sem þau hittu fyrst við komuna hingað. Eiginlega er ekki hægt annað en verða snortinn og um leið hreykinn af því að enn séu svo margir á Íslandi tilbúnir að rétta ókunnugum hjálparhönd og taka vel á móti gestum hvaðan sem þeir koma. Bókin er veluppsett, vel skrifuð og athyglisverð. Þær Margrét og Guðríður eiga hrós skilið fyrir að finna þetta fólk og koma sögum þeirra á blað því þær eru fjölbreyttar og merkilega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2023 | 14:45
Er ofbeldishneigð ættgeng?
Bölvunin eftir Christoffer Carlsson er óvenjuleg sakamálasaga að því leyti að glæpurinn og lausn hans eru ekki þungamiðja sögunnar heldur hvaða áhrif það hefur á nákomna og samfélagið þegar voðaverk er framið. Óveðursnótt eina kviknar í bóndabýli og þegar menn taka að skoða rústirnar finnst lík ungrar konu og réttarkrufning leiðir í ljós að hún var látin áður en eldurinn braust út og hafði verið myrt.
Ísak á náið og gott samband við Edvard móðurbróður sinn. Drengurinn lítur upp til eldra mannsins en þegar Edvard er sakaður um morðið á kærustu sinni og dæmdur í fangelsi fer veröld Ísaks á hvolf. Hvað ef hann er eins og móðurafi hans og Edvard, ofbeldishneigður? Er það bölvunin sem hvílir á fjölskyldunni?
Á sama tíma og Ísak vex upp með skarlatsrauðan staf á bakinu vegna gerða afans sem barði konuna sína og móðurbróðurins sem hugsanlega sína lætur málið Viðar Jörgensen lögreglumann ekki í friði. Honum finnst eitthvað vanta og þegar hann rekst á svipaða atburðarás í öðrum bæ opnar hann málið að nýju án þess að tala við yfirmenn sína.
Christoffer Carlsson er afbrotafræðingur og rithöfundur og velþekktur á báðum sviðum í Svíþjóð. Hann skrifar af ótrúlegri næmni og persónur hans eru eftirminnilegar og lesandinn á auðvelt með að fá samúð með þeim. Bölvunin er frábær saga og góð lesning í lok sumars.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)