Stórar siðferðisspurningar hjá frábærum höfundi

tiundi-madurinnTíundi maðurinn eftir Graham Greene var skrifuð árið 1944 þótt hún væri ekki gefin út fyrr en árið 1983. Ástæðan var sú að handritið gleymdist og þegar það fannst fyrir tilviljun í skjalasafni Metro-Goldwyn-Mayer kom það öllum óvart, höfundinum sjálfum líka. Graham Greene var sjötíu og níu ára þegar þetta var og rámaði helst í að hafa verið að skrifa hjá sér nótur til undirbúnings sögu um þetta efni en minnist þess ekki að hafa klárað heilstæða sögu eins og var raunin. Þetta er áhugaverð bók sem veltir upp stórum spurningum um hvers virði mannslífið er og hvort einn maður geti verið verðmætari en annar.

Sagan gerist í stríðsfangabúðum Þjóðaverja. Þar situr fanginn meðal þrjátíu og tveggja annarra efnaður franskur lögfræðingur Louis Chavel að nafni. Dag nokkurn tilkynnir þýskur foringi þeim að hópurinn verði að velja úr þrjá menn sem síðan verði skotnir daginn eftir. Þeir ákveða að láta hendingu ráða. Búa til þrjátíu og tvo pappírsmiðja og teikna krossa á þrjá. Þeir sem draga krossana verða síðan að ganga fyrir aftökusveitina daginn eftir. Tveir þeirra taka örlögum sínum af æðruleysi en Louis Chavel fallast gersamlega hendur. Hann grætur og barmar sér og lofar klefafélaga sínum að hann muni gefa fjölskyldu hans auðævi sín ef hann taki við krossinum. Klefafélaginn Janvier samþykkir það. En ákvörðunin dregur dilk á eftir sér. Systir Janviers getur hvorki sætt sig við gerðir bróður síns né fyrirgefið Louis Chavel að hafa sett hann í þessi spor.

Graham Greene er frábær höfundur. Hans þekktustu bækur, Brighton Rock, The Power and the Glory, the End of the Affair, Our Man in Havana og the Quiet American eru klassískar og einkar vel skrifaðar. Tíundi maðurinn er ber öll höfundareinkenni þessa stílsnillings. Hér er engu orði ofaukið en höfundi tekst að skapa bæði spennu og hræra í tilfinningum lesenda. Hann dregur upp áhrifaríkar myndir og vekur spurningar. Senan þar sem Louis lýsir fyrir hinum dauðadæmda Janvier fegurð hússins og landareignarinnar sem hann hefur afsalað sér til félaga síns sem veit þó að hann mun aldrei njóta þessa er sérstaklega eftirminnileg.

Hið sama má segja um hvernig Thérèse, systur Janviers, er lýst. Hún er full haturs á manninum sem var valdur að dauða bróður hennar og getur ekki þess vegna iðkað trú sína. Hún er kaþólsk og svo brennandi hatur og skortur á fyrirgefningu er synd. Thérèse er því dæmd til að deyja án þess að njóta náðar guðs. Louis Chavel er lítið betur staddur því hann er eignalaus og í raun bjargarlaus. Og þarna er önnur mikilvæg og áhugaverð spurning. Geta menn byrjað upp á nýtt og aðlagast nýjum aðstæðum gerólíkum þeim sem þeir þekktu áður? Thérèse og móður hennar líður ekki vel í glæsihúsinu sem þær nú eiga og Louis þarf að villa á sér heimildir til að geta fundið vinnu og þak yfir höfuðið. Hér er stórar siðferðisspurningar undir og stundum eru fórnir færðar algjörlega að ástæðulausu og engum til gagns.


Bók handa skapandi börnum

Fyrir um það bil 500 árum var fólk læsara á myndir og tákn en texta og stundum finnst mér að Islensk_myndlist_72þeir tímar séu að renna upp að nýju með öllum þeim tjáknum, skammstöfunum og orðastyttingum sem farið er að nota í símaskilaboðum og tölvupóstum. Kannski er þetta til marks um að ritað mál sé á undanhaldi en þá ætti að felast í því tækifæri fyrir myndlist að ryðja sér fyrirferðarmeira rými í daglegu lífi. Ef svo er má segja að Margrét Tryggvadóttir hafi hitt á óskastund fyrir bók sína, Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina.

Það er frábærlega vel unnin bók. Umbrotið er fallegt, pappírinn veglegur, myndirnar vel valdar og textinn vandaður. Bókin er hugsuð sem inngangur að myndlist fyrir krakka og unglinga en er ekki síður áhugaverð fyrir fullorðið fólk. Hér er sagt í stuttu og skýru máli frá ýmsum aðferðum við að skapa list og fyrstu íslensku myndlistarmönnunum. Auðvitað var hér alla tíð fólk sem kaus að tjá sig í margvíslegri listsköpun, tréútskurði, smíðavinnu, myndskreytingum, vefnaði og útsaum og eflaust fleiri efni verið notuð til að skapa listfagra gripi. Þau sem sagt er frá í bókinni eru hins vegar fyrstu Íslendingarnir til að beinlínis mennta sig í myndlist og leitast við að gera hana að ævistarfi. 

Við þekkjum auðvitað þetta fólk, list þeirra er víða að finna í almannarýmum en hér er varpað ljósi á listsköpun þeirra og sagt stuttlega frá ævi þeirra. Þetta stórfín leið til að opna ungu fólki leið inn í listheiminn og gera þau læsari á myndmál, tákn, form og innihald myndverka. Margréti tekst einkar vel að gera hlutina aðgengilega og vekja til umhugsunar. Hún gerði þetta líka einstaklega vel í bók sinni um Kjarval og hér er komið frábært skref til að gefa skapandi börnum innsýn í sögu og möguleika myndlistar á Íslandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband