Sé gegnum holt og hæðir

Jæja, ég fór í laseraðgerð á augunum í gær hjá LaserSjón og sé nú gegnum holt og hæðir. Á einum sólarhring hefur sjónin batnað ótrúlega. Í stað þess að nota gleraugu +3,5 nota ég +1 til að hvíla augun. Vinstra augað sem ég sá mjög óskýrt með er nú næstum jafngott og það hægra og augun munu enn batna. Mér var sagt að fara varlega í tvo sólarhringa því ákveðin sýkingarhætta er fyrir hendi. Ég á því að ganga með sólgleraugu til að verja augun og það gerði ég samviskusamlega í dag. Ég fór með Helen systur í Bónus og sennilega hefur fólk haldið að ég væri með stórmennskubrjálæði þar sem ég gekk um með sólgleraugu innandyra eins og Hollywood-stjarna sem ekki vill þekkjast. Að auki var rigning og grámygla fyrir utan þannig að ekki varð ég gáfulegri þegar ég kom út. Mér finnst það töfrum líkast að hægt sé að gera svona hluti. Ég fann nánast ekkert fyrir aðgerðinni sjálfri og í gærkvöldi fann ég svolítinn sviða í augunum í þrjá klukkutíma og þar með var það búið. Núna er eins ekkert hafi gerst. Þetta er frábært.

Bloggfærslur 19. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband