Ævintýri á gönguför

Við Freyja brugðum okkur í gönguferð við Rauðavatn í kvöld. Við höfum oft gengið þarna áður en þá oftast farið hringinn í kringum vatnið. Að þessu sinni uppgötvuðum við göngustíganet sem liggur upp í brekkurnar fyrir ofan vatnið og skemmtum okkkur konunglega þar. Freyja skondraðist við hliðina á mér kát og glöð í hálfrökkrinu og friðurinn var alger. Við heyrðum hvorki mannmál né umferðarnið og þess vegna brá mér illilega þegar ég tók skyndilega eftir því að gulu hundarnir voru orðnir tveir. Eitt augnablik datt flaug í gegnum hug mér að amöbur skiptu sér auðveldlega í tvennt og kannski hefði það hent þarna að tíkin mín hefði óvænt fjölgað sér á þennan nýstárlega hátt (þ.e. þegar spendýr á í hlut9. Það reyndist ekki vera því fyrr en varði birtist eigandi hins hundsins sem var íslenskur og kallaður Seifur. Við Freyja örkuðum áfram upp í hæðirnar en gríska hágoðið og eigandi þess héldu niður á við. Þegar kom að því að snúa til bak ákvað ég að prófa að ganga eftir öðrum stíg og sjá hvort það leiddi mig ekki niður að vatninu aftur. Ég arkaði af stað en stígurinn góði hlykkjaðist með undarlegum rykkjum og skrykkjum ýmist niður að vatninu eða aftur upp í hæðirnar. „Hafðu ekki áhyggjur Freyja mín, allar leiðir liggja til Rómar,“ sagði ég við tíkina en varð að játa skömmu síðar að ég hefði ratað á eina veginn í Evrópu sem ekki tæki fyrr eða síðar beygju að þeim áfangastað. Við gengum því rúmum tuttugu mínútum lengur en ætlunin var en Freyja var sko ekki að sýta það.

Heimsk sem bolabítur

Þessa dagana sankast að mér sannanir fyrir lélegu gáfnafari mínu. Fyrst trúði Jón Gnarr þjóðinni fyrir því að gáfaða fólkið kynni að meta Næturvaktina en heimskingjarnir skildu ekki húmorinn. Þar sem ég er ein þeirra örfáu sem ekki get hlegið að áníðslu yfirlætisfulls hrokagikks á einfaldri og hálfsaklausri sál verð ég víst að játa á mig gáfnaskort. Við bætist svo að Mogginn flytur frétt af nýrri rannsókn sem sýnir að mjaðma- og bosmamiklar konur eru bæði gáfaðri og fæða greindari börn en hinar. Ég á hinn bóginn er ákaflega grönn yfir mjaðmirnar og fitna helst framan á maganum en samkvæmt þessu geymir ístran aðeins omega 6 fitusýrur sem eru lélegt fóður fyrir heilann. Ekki lýgur Mogginn og ekki ljúga vísindinn svo ég verð víst að lifa við það að vera heimsk sem bolabítur.


mbl.is Stundaglasavöxtur til marks um gáfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband