Eðli ofbeldis

Þakka ykkur fyrir góð viðbrögð við pistlinum mínum um eftirminnilegasta viðtalið. Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í að gera eitthvað fyrir Guðrúnu ef einhverjum dettur í hug góð leið til þess. Mér fannst líka merkilegt að Heiða segir mér að hún hafi hitt stúlkuna sem fór harðast fram í árásinni og líf hennar hafi ekki verið dans á rósum. Staðreyndin er reyndar sú að líf ofbeldismanna er sjaldnast gott. Þeir mála sig fljótt út í horn og fyrr eða síðar þurfa þeir að takast á við afleiðingar gerða sinna. En hvers vegna skyldi það vera að sum okkar eru ávallt tilbúin að reiða hnefa á loft og láta hann dynja á öðrum í stað þess að leysa málin á annan hátt? Það er erfitt að komast að niðurstöðu um það. Börn sem búa við ofbeldi beita ekki endilega ofbeldi. Sumir vinna úr erfiðri reynslu og sigrast á ótrúlegum erfiðleikum, aðrir eru sjálfum sér verstir og svo er þriðja gerðin sem tekur reiði sína og vanlíðan út á öðrum. Þeir láta stjórnast af hvatvísi og reyna ekki að staldra við og hugsa áður en þeir framkvæma. Vissulega eru þeir líka sjálfum sér verstir en ná líka iðulega að særa aðrar sálir nánast til ólífis. Ég vildi óska þess að hægt væri að skilgreina og skilja hvað skilur á milli þeirra sem lifa af og hinna sem særa aðra. Mér fannst athyglisvert þegar ég heyrði að í rannsókn sem gerð var á morðingjum og mönnum sem gerst höfðu sekir um grófar líkamsárásir í Bandaríkjunum kom í ljós að upp til hópa skorti þá hæfni til að finna til meðlíðunar með öðrum. Ég er ekki að dæma allt ofbeldisfólk með þessum orðum en ég velti því fyrir mér hvort þessi samúð og skilningur á tilfinningum annarra geti verið það sem kemur í veg fyrir að fleiri beiti ofbeldi.

Bloggfærslur 20. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband