27.11.2007 | 13:22
Undarlegar draumfarir
Ég hef talað um það áður að draumfarir í minni fjölskyldu eru iðulega með undarlegra móti. Ég held þó að nýlegur draumur minn sé með því furðulegra í því safni. Pabbi minn dó fyrir tveimur árum og mig hefur sjaldan dreymt hann síðan. Um daginn dreymdi mig þó að ég væri stödd í gamla húsinu sem föðurafi minn bjó í sem nú er búið að rífa og þar var í gangi miðisfundur. Pabbi var með mér og afi talaði í gegnum miðilinn og vildi koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Skyndilega barst draugaleg rödd afa úr öllum hornum stofunnar: „Gefðu honum vespuna.“ „Gefðu honum vespuna.“ Mér fannst ég skilja að þarna væri um að ræða litla vespu sem pabba hefði langað að eignast þegar hann var unglingur og ekki fengið. Afi var sem sagt að segja mér að láta draum pabba rætast. Ég sagði að sjálfsögðu: „Já.“ og kyssti pabba á kinnina og þar með var draumurinn búinn. En úr hvaða undirdjúpum undirmeðvitundar minnar þessi vespa og draugagangur kom er mér gersamlega fyrirmunað að ímynda mér í vöku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)