Grunnskólabörn og trú

Að undanförnu hefur mikið verið um það rætt og margir stórhneykslaðir á því að prestum hafi verið úthýst úr leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Menn supu líka hveljur og óttuðust að menntamálaráðaherra ætlaði að gera kristið siðgæði brottrækt úr skólunum. Ég var eiginlega alveg undrandi á þessu fjaðrafoki og hugsaði: „What's the Beef?“ Sjálf trúi ég ekki á guð í kristnum skilningi en tel mig siðlega manneskju í alla staði. Ég hef líka fundið í mörgum öðrum trúarbrögðum siðaboðskap sem mér finnst ekkert síðri en sá kristni og að vissu leyti betri. Búddismi er til að mynda heimspeki sem mikil skynsemi er í, hindúar bera mikla virðingu fyrir öllu lífi og í ásatrú felst virðing fyrir náttúrunni. Margir vestrænir heimspekingar hafa einnig lagt línurnar um hvernig lifa eigi með mannlegri reisn án stuðnings trúarbragða og mörgum mönnum ferst það bara ansi vel. Það er engin trygging fyrir manngæsku að menn beri hempu og líkt og skáldið sagði þá spretta kristilegu kærleiksblómin kringum hitt og þetta. Innan kirkjunnar er margt gæðafólk en þar er misjafn sauður sem víðar. Ég vil ekki að kristinni trú sé þröngvað upp á börnin mín eða barnabörn. Ég vil að þau fái sjálf að gera upp við sig hvaða manngildi þau telja eftirsóknarverðust og hvaða siðaboðskap þau telja heppilegastan í mannlegum samskiptum. Sjálf reyndi ég að innræta þeim virðingu fyrir öðrum, umburðarlyndi og ást á öðrum lifandi verum sem byggja jörðina með okkur. Þetta kann að hljóma kristilega en á rætur mjög víða annars staðar. Prestar hafa ekkert að gera út fyrir kirkjurnar. Allir vita hvar þá er að finna og þeir sem vilja geta sótt þjónustu þeirra. Að veita þeim aðgang umfram aðra að börnunum okkar er hreinn yfirgangur.

Bloggfærslur 30. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband