18.12.2007 | 11:47
Viðburðir og viðburðaleysi
Árlega tek ég saman jólabréf og sendi frænku hans Gumma sem býr í Edinborg. Þetta er alveg stórskemmtilegt og oft stend ég mig að því að hugsa: Gerðist virkilega allt þetta. Það er nefnilega svo skrýtið að á meðan við kvörtum og kveinum dagsdaglega yfir önnum þá finnst okkur sjaldnast neitt mikið að gerast í lífi okkar. Þegar við erum spurð: „Eitthvað að frétta?“ Er svarið oftast: „Nei, nei, bara þetta venjulega.“ Í bandarískum bíómyndum er atburðum sem oftast nær gerðust á heilli mannsævi dengt saman í eina og hálfa klukkustund og svoleiðis hamfarir finnst okkur til marks um að eitthvað sé að gerast. Til allrar lukku kemur það sjaldan fyrir að menn skilji, missi fyrirtækið, móður sína og alla vinina á einu ári. Þeir fáu sem fara í gegnum slíkan hildarleik eru ekki öfundsverðir. Hins vegar gætu atburðir sem þeir sem að ofan er lýst gerst á einni mannsævi með margra ára millibili. Mér finnst líf mitt alltaf eins, vinna, sofa, ganga með hundinn og örsjaldan er skroppið í heimsókn, saumklúbb eða eitthvað skemmtilegt. Jólabréfin sýna mér á hinn bóginn alltaf fram á að ekki er tíðindalaust á vesturvígstöðvunum því einhver útskrifast, annar giftist, einn skilur, börn fæðast, hús eru keypt og seld og ótalmargt fleira sem gerir lífið skemmtilegt, erfitt, yndislegt og ömurlegt. Já, það er aldrei svo að maður upplifi algert viðburðaleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)