6.12.2007 | 09:25
Sviptir allri skynsemi
Hvað er það sem gerir það að verkum að skynsömustu og velgerðustu menn missa alla dómgreind og rökhugsun þegar kvenréttindi ber á góma? Ég hef iðulega lent í umræðum við greinda, velmenntaða menn sem geta krufið alþjóðastjórnmál og hagkerfið til mergjar og fært ótal rök fyrir því að hlutirnir eigi að vera svona en ekki hinssegin en um leið og minnst er á að jafna þurfi hlut kvenna í valdastöðum tapa þeir sér. Einu rökin sem þá eru tiltæk eru að konur séu ekki að biðja um jafnrétti heldur forréttindi og í sumum tilfellum, því miður, þau að það eina sem kvenréttindakerlingar þurfi sé góður dráttur eða smáskammtur af nauðgun. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þetta. Gott dæmi um það sem ég er að tala um er færsla á bloggi ofurbloggarans Jens Guð. Hann hafði lesið frétt af þremur drengjum í Bandaríkjunum á aldrinum 9-11 ára sem dregið höfðu stallsystur sína 11 ára inn í skóg og með því að hóta henni að keyra grjóthnullung í höfuð hennar fengið hana til að afklæðast og einn drengjanna hafði nauðgað henni. Í stað þess að undrast að svo ung börn tækju upp á því að beita svo grófu ofbeldi hneyksluðust karlmenn sem kommenteruðu á því að talað væri um nauðgun í þessu sambandi drengirnir hefðu ekki hvolpavit. Einn gekk meira að segja svo langt að fullyrða að nauðgun væri sambland af ofbeldi og kynferðisathöfn. Nauðgun er ofbeldi, punktur og basta og hefur ekkert með kynferðisathafnir manna að gera. Þetta er ekki mín skoðun heldur hefur verið sýnt fram á þetta með ótal rannsóknum á sálfræði nauðgara. Það er ekki kynlífslöngun sem rekur þá áfram heldur þörf fyrirl að meiða, misþyrma og niðurlægja. Reiði er ríkjandi tilfinning í sál þeirra en ekki losti. Þess vegna velti ég fyrir mér hvaða tilfinning hafi rekið Gilzenegger áfram þegar hann mælti með því á blogginu sínu að femínistar yrðu beittir kynferðislegu ofbeldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)