Ljóminn er ljómandi góður

Ég er á hugleiðslunámskeiði og í gærkvöldi hélt Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fyrirlestur um gjörhygli/íhugun og sálfræðileg áhrif hennar á manneskjuna. Fyrirlesturinn var óskaplega áhugaverður en af því að mannshugurinn hleypur sífellt út og suður týndi ég mér oft og iðulega í tungutaki Önnu og hlustaði þá ekki lengur á inntak orða hennar heldur orðin sjálf. Ég veit að þetta þarf ég að útskýra betur. Anna talar afskaplega fallega íslensku en stundum er tungutak hennar dálítið fornt. Einu hjó ég sérstaklega eftir og það var að hún notar oft lýsingarorðið ljómandi bæði til áherslu og eitt og sér. Þetta orð man ég ekki eftir að hafa heyrt nokkurn mann nota síðan í sveitinni hjá ömmu. Það var fyrir fjörutíu árum. En Anna talaði um að þetta væri ljómandi gott, ljómandi þægilegt eða bara ljómandi. Allt í einu rann upp fyrir mér þar sem ég sat á mínum púða í hugleiðslusalnum að þetta er bara alveg ljómandi orð og sjálfsagt að nota það. Alltaf leggst manni nú eitthvað til og nú er ég einu orði ríkari. Ljómandi!

Ójarðnesk birta

Hafið þið tekið eftir birtunni í ljósaskiptunum undanfarna daga? Ójarðnesk fegurð er lýsingin sem kemur upp í hugann þó ég skilji nú ekki alveg hvernig hægt er að tala um að jarðnesk fyrirbæri séu ójarðnesk. Kannski fannst fólki að sumir hlutir væru svo fallegir að þær ættu tæpast við hér í þessu guðsvolaða mannlífi og væru því meira skyldir sæluríkinu á himnum. En hvernig sem því er nú háttað þá er þessi birta svo heillandi að ég stend stokkfrosin uppi á Víghól á hverju kvöldi og stari á himininn. Neðst er eldrauður bekkur og þar fyrir ofan roðagyllt geislaflóð sem smátt og smátt deyr út í grábláma og stöku dimmblá ský sveima yfir öllu. Í fjarska stilla sér svo upp á aðra höndina Snæfellsjökull með hvítan topp en á hina grá og tignarleg Grindaskörðin. Já, svona lítur himininn áreiðanlega út allan sólarhringinn í ævintýralandinu.

Bloggfærslur 14. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband