Væntingarnar og veruleikinn

Ég hlýddi á fyrirlestur í Jóhönnu Guðrúnar Jóhannsdóttur fjölskylduráðgjafa í gærkvöldi. (Ég held að hún sé Jóhannsdóttir man það þó ekki alveg). Hún talaði mjög skemmtilega um væntingar okkar til lífsins og vonbrigðin sem verða þegar þær standast ekki. Einkum og sér í lagi varð henni tíðrætt um ástina og hvernig sætustu draumaprinsar geta breyst í froska þegar minnst vonum varir. Hún talaði líka um að festast í reiðinni og nefndi sem dæmi konu sem í átján ár hafði núið bónda sínum því um nasir að hann drakk fullmikið í brúðkaupsveislunni og hraut því alla brúðkaupsnóttina. Þau hjón leituðu loks til Jóhönnu Guðrúnar og þá spurði hún konuna: „Og hvað færðu út úr þessu?“ Það kom víst á kerlu og hún varð að hugsa sig um. Fyrir mína parta finnst mér átján ára nöldur lágmarksdómur fyrir að sofna á brúðkaupsnóttina og sennilega hefðum við fengið eitthvað út úr því að hittast og ræða þetta, ég og þessi kona.

Fréttir sem aldrei birtust

Ég gekk á Úlfarsfellið með Freyju í gærkvöldi og líkt og venjulega þegar við tvær ferðumst um fjöll saman horfði ég með öfund á tíkina sem skondraði upp og niður brekkurnar skælbrosandi. Ég skreiddist á eftir másandi og blásandi eins og strandaður hvalur þess fullviss að mín síðasta stund myndi þá og þegar renna upp. Freyja lét svo lítið að kíkja á mig af og til og svipurinn á henni sagði: Ætlar þessi aumingi að verða til hér í brekkunni eða mun honum takast að dröslast upp? Aumingjanum tókst að klöngrast upp á topp og mikil var sigurvíman þegar ég loksins gat notið útsýnisins meðan hjartslátturinn og andardrátturinn jafnaði sig. Ég veit raunar ekki hvaða sjálfspyndingarhvöt rekur mig af stað upp á fjöll á vorin en þetta er árviss atburður og alltaf er það tilhugsunin um hinar ýmsu fréttafyrirsagnir sem kemur mér á toppinn nefni hér aðeins nokkur dæmi: Miðaldra kona borin niður af Úlfarsfelli í andnauð! Sprungin í miðjum hlíðum! Miðaldurskreppa í miðju fjalli!

Bloggfærslur 28. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband