Úað af hjartans lyst

Í gær fórum við Freyja í göngutúr og ákváðum að ganga út með Kársnesinu. Veðrið var ágætt og lítil skúta vaggaði úti á Fossvoginum. Einhverjir siglingaklúbbsmenn voru líka með börn í smábátum úti að róa og það var gaman að fylgjast með hópnum. Það eina sem spillti var að óskaplega margir hjólreiðamenn voru þarna á ferli og þeir sem þekkja Freyju vita að hún er ákveðin í að ná a.m.k. einum slíkum einhvern tíma á ævinni. Æðafuglar svömluðu í flæðarborðinu og úuðu á mig af fullkomnu miskunnarleysi. Þeir gáfu það berlega í skyn að ekki væri forsvaranlegt kona klædd flíspeysu löðrandi í hundahárum og leikfimisbuxum sem með reglulegu millibili sigu niður undir hné væri á ferli á þessum stað. Ég viðurkenndi svo sem að þeir hefðu nokkuð til síns máls en tók síðan upp á þeim skemmtilega sið að úa á móti. Það hefði svo sem ekki verið í frásögur færandi nema vegna þess að eitthvert hjólreiðamannsóféti laumaðist upp að mér á hljóðlausu hjóli og það varð til þess að síðasta úið kafnaði í hálsinum á mér og varð eiginlega bara máttleysislegt u. Ég gat hins vegar ekki betur séð en að eitthvert skítaglott breiddist yfir andlit hjólreiðamannsins um leið og hann renndi sér fram hjá.


Ættarfylgjur

Okkur systrum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir það að vera ekki nægilega myndarlegar húsmæður. Það var nú reyndar aðallega hér áður fyrr að þetta kom fyrir og helst var það gömul frænka okkar sem hafði áhyggjur af bóklestri okkar sem var á kostnað handmennta sem hún taldi að við stunduðum alltof lítið af. Helen systir fyrtist við einhverju sinni þegar kvartað var undan lítilli leikni hennar með heklunálina og hvæsti á gömlu konuna að aðrar konur mættu kaupa sér stálull og prjóna sér ísskáp hún ætlaði að láta það vera. En okkur systrum er nokkur vorkunn því það lítur út fyrir að þetta sé ættgengur andskoti. Langamma okkar Guðlaug Pálsdóttir á Svínabökkum í Vopnafirði var þekkt fyrir að vera félagslynd og skemmtileg en fremur lítil húsmóðir. Svínabakkar voru í þjóðbraut á þeim tíma er hún var uppi þannig að jafnan var gestkvæmt á bænum. Langamma hafði sérlega gaman af að spila og var það venja hennar að draga þá sem duttu inn úr dyrunum í félagsvist og síðan var spilað þar til menn ultu út af sofandi. Bærinn á Svínabökkum var orðin nokkuð gamall og lélegur þegar þessi saga gerðist en þá fylltist allt af gangnamönnum sem orðið höfðu veðurtepptir á leið yfir Smjörvatnsheiði. Amma dreif alla í spilamennsku eins og venjulega en þegar minnst vonum varði hrundi baðstofuloftið niður á næstu hæð. Þeirri gömlu brá ekki meira en svo að hún stóð upp úr brakinu, hristi af sér versta gromsið og sagði svo: Hver á að gefa? Við systur myndum sennilega allar frekar spila vist en prjóna og sauma en scrabble er hins vegar uppáhaldsspilið og við spilum hver með aðra.

Bloggfærslur 2. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband