Einka Steinka

Ég velti því lengi fyrir mér eins og títt er um börn hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Lengi var ég sannfærð um að það myndi hentar mér einkar vel að verða spæjari eins vinkona mín Nancy Drew en hvarf frá því. Mig langaði ekkert til að verða hjúkrunarkona eins og Rósa Bennett og fann aldrei til löngunar að verða flugfreyja. Ég veit ekki af hverju það var því ríflega helmingur vinkvenna minna ætlaði að leggja fyrir sig annað hvort þessara starfa hins vegar fannst mér einhver ljómi yfir einkaritarastarfinu. Ég sá fyrir mér einhvern hjálparvana forstjóra sem treysti á mig í einu og öllu og að ég svifi tindilfætt inn á skrifstofu hans með hraðritunarblokkina í annarri hendi og kaffibolla í hinni. Ég óx upp úr þessu þótt hraðritunarblokkin hafi reyndar verið hluti af vinnu minni. Blaðamenn komast ekki langt án þess að geta skrifað mjög hratt. En núna dreymir mig um að verða forstjóri með einkaritara og ræstingakonu.

Dýr morgunblundur

í morgun var ég venju fremur syfjuð og stuggaði því hastarlega við tíkinni þegar hún reyndi að vekja mig klukkan hálfsjö. Ég hafði þó grun um að dýrið þyrfti að láta frá sér eitthvað svo ég skreiddist niður og opnaði útidyrnar. Drattaðist því næst hálfblind upp aftur og hélt áfram að sofa. Þegar ég vaknaði nærri þremur klukkustundum síðar blöstu fyrst af öllu við mér brúnir moldarblettir um allt rúmið mitt. Ég æpti upp yfir mig og flaug auðvitað fyrst í hug að viðbjóðslegur uppvakningur sendur af Svövu systur hefði spígsporað yfir rúmið mitt með þessum afleiðingum. Næst sá ég að rúmteppið mitt, sem lá snyrtilega samanbrotið á gólfinu, var allt út í svipuðum blettum, svefnherbergisgólfið sömuleiðis, teppið á stigapallinum og stiginn niður. Holið á neðri hæðinni var þakið í mold og forstofan eins og einhver hefði staðið þar í skurðgreftri. Í einu horni forstofunnar svaf engilfríður gulur hundur og ekki bar á mold á honum að ráði. Ég skyldi ekkert í þessu þar til ég fann upp í sófa í sjónvarpshorninu viðbjóðslega spýtu þakta mold, sniglum og sandi. Tíkin hafði sem sé sótt þetta einstaklega, aðlaðandi leikfang út í port þegar ég opnaði og afleiðingarnar voru þessi skemmtilegheit. Það tók mig þrjá og hálfan tíma að þrífa húsið eftir ævintýrið. Tíkinni reyndust sem sagt drjúg morgunverkin en morgunblundurinn var mér dýr.


Bloggfærslur 3. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband