Hundur úti á túni að bíta gras

Enn eitt óbrigðult merki um að vorið er komið er að Freyja er farin að bíta gras. Hundar og kettir gera þetta til að hreinsa meltingarveginn af hárvöndlum en það er alltaf jafnfyndið að sjá gulan hund standa úti á túni og bíta gras. Sérstaklega er þetta skondið vegna þess að klippibitið er í jöxlunum hjá hundum en ekki framtönnunum eins og hjá grasbítum þannig að tíkin verður að halla undir flatt og bíta stráin í sundur á hlið. Hún japlar sem sagt á grasinu og svipurinn er hreint óborganlegur. Í morgun stóð og ég og horfði á hana flissandi eins og kjáni þegar tveir Pólverjar gengu framhjá og störðu á mig með óttaglampa í augum. Þetta var næstum eins vandræðalegt og þegar maðurinn gekk fram á mig í Kópavogsdalnum þar sem ég stóð í hrókasamræðum við sjálfa mig. Þá var ég eldsnögg að hugsa sneri mér að umsvifalaust að tíkinni og sagði: Já, ertu ekki sammála þessu. Ég veit ekki hvort þessi redding virkaði en maðurinn leit um öxl hvað eftir annað til að vita hvort þessi veðurviti stæði þarna enn.

Bloggfærslur 20. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband