Hvers vegna nauðga karlmenn?

Ársskýrsla Stígamóta er nýkomin út og þar er að finna ýmsar sláandi tölur. Í ljósi þeirrar aukningar sem orðið hefur á nauðgunum hljóta menn að spyrja sig hvers vegna karlmenn nauðga? Ég held að ein ástæðan sé sú að karlmenn hlutgera konur og líta þar af leiðandi ekki á þær sem manneskjur með tilfinningar heldur fremur eins og mark í kappleik eða viðskiptasamning sem verði að berja saman hvað sem það kostar. Í 1. tbl. 2007 h-tímarit skrifaði ég grein um karlmenn sem skorið hafa upp herör gegn kynferðisofbeldi. Hér á eftir fer brot úr þessari grein.

Ofbeldi gegn konum er mjög algengt meðal íþróttamanna í Bandaríkjunum. Tvennt virðist koma til, bæði er samkeppnin svo mikil innan leikvangs og utan að menn eru hreinlega hvattir til að rækta með sér árásargirni og einnig eru umræður í búningsklefunum fullar af kvenfyrirlitningu; konur eru hlutgerðar. Don McPherson, fyrrum hafnaboltaleikari, áttaði sig á því hversu hættulegur slíkur hugsunarháttur gat verið þegar hann kynntist konu sem hafði verið nauðgað af fjórum mönnum. Þau sár sem atburðurinn hafði skilið eftir sig á sál hennar urðu til þess að hann ákvað að fara inn í búningsklefana og tala við íþróttamennina og reyna að leiða þeim fyrir sjónir hvað gæti leitt af tali þeirra.

Don viðurkennir hreinskilnislega að hann hafi notfært sér frægð sína og virðingu hinna fyrir hæfni sinni sem íþróttamanns til að ná til þeirra. Meðal þess sem hann bendir mönnum á er að karlmenn njóta ákveðinnar yfirburðastöðu í samfélagslegum skilningi og að öldum saman hafi ofbeldi gegn konum verið viðurkennt af samfélagi okkar.

„Þetta er líkt og rasismi," segir Don. „Ef rasismi væri eingöngu mál sem snerti svarta værum við ekki hér. Það var ekki fyrr en hvítt fólk tókst á við hvítt fólk bak við luktar dyr sem málin tóku að breytast. Karlmenn þurfa að takast á við aðra karlmenn bak við luktar dyr svo hægt sé að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi."

Á bak við lokaðar dyr búningsklefanna bendir Don sínum mönnum á hvernig kvenfyrirlitning þeirra og hatur í garð kvenna endurspeglist í tungumálinu sem þeir nota. Eftir góðan leik hittist menn á barnum og einn þeirra renni hýru auga til konu. Daginn eftir hópist hinir um hann í klefanum og spyrji: Did you hit it? Did you flip it? Did you slap it? Did you knock the boot? Did you kill it? Sambærilegt á íslensku væri hugsanlega: Negldirðu hana? Skoraðirðu? Gerðir þú hitt? Fórstu alla leið? Don bendir á að með tali sem þessu séu konur hlutgerðar og ofbeldið sem felist í orðunum hvetji karlmenn til að líta á kynlíf sem kappleik þar sem allt snúist um að skora fremur en að taka tillit til hinna leikmannanna.


Bloggfærslur 22. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband