23.5.2007 | 22:58
Algjörir nördar
Við hjónin verðum nördalegri með hverju árinu sem líður. Við erum farin að hafa gaman af fuglaskoðun og höfum orðið kíki með í för þegar við göngum með hundinn og stoppum af og til og kíkjum á fugla. Ég er nokkuð viss um að ýmsir sem mæta okkur fitja upp á nefið og hugsa með sér: Þvílíkir sauðir. En það er allt í lagi Það er hreint ótrúlega gaman að fylgjast með fuglunum og svo kemur upp í manni ákveðin keppni þ.e. maður fer að keppast við að koma auga á sem flestar fuglategundir og jafnvel merkja við hjá sér þær sem manni hefur þegar tekist að koma auga á. Í vor höfum við séð rauðhöfðaönd, gargönd, skúfönd, toppönd og hávellu. Við höfum líka séð margæsir, heiðargæsir, grágæsir og helsingja auk margra mófugla. Við vorum fórum einmitt í fuglaskoðunartúr út á Álftanes um daginn og skemmtum okkur konunglega. Freyja var ekki eins ánægð, enda varð hún að sitja á strák sínum meðan við horfðum nægju okkar. Hún sér engan tilgang með fuglum annan en þann að reka þá upp hvar sem þeir safnast í hópa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)