24.5.2007 | 15:12
Enn af Lalla Johns
Umræðan um auglýsinguna með Lalla Johns er að mínu mati að verða hið versta rugl. Hver frelsispostulinn á eftir öðrum rýkur upp til varnar því að Lalli vesalingurinn eigi nú að fá að vinna sér inn aur fyrst hann býðst eða að varla sé verra að Lalli tali frá sínu faglega sjónarhorni en Eiður Smári frá sínu og að Lalli sé frjáls að því að gera nákvæmlega það sem hann vill. Þessar röksemdir eru það sem á mínu heimili hefði verið kallað hundalógík. Auðvitað er Lalli frjáls að því að gera það sem hann vill og mikið er fínt að Öryggismiðstöðin var tilbúin að rétta honum 300.000 kr. Það hefði meira að segja mátt vera meira. Það er líka fínt að Lalli upplýsi almenning um viðhorf innbrotsþjófa. Auglýsingarnar eru hins vegar siðlausar fyrir allt aðrar sakir eða þær að verið er að ýta undir ótta samborgaranna við ógæfumenn og hreinlega gera út á fordóma. Ræður Lalla um óvarin hús og þankagang innbrotsþjófa breikka þá gjá sem er milli hans og þeirra sem standa innangarðs í samfélaginu. Við þurfum meira á því að halda að auka skilning á aðstæðum ógæfufólks en að undirstrika þá ímynd að það sé ógn við öryggi okkar og heimilisfrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)