31.5.2007 | 16:39
Samræður eða einræður
Ég er alveg skæð með það að tala við sjálfa mig í tíma og ótíma. Ef ég kvíði fyrir einhverju undirbý ég mig gjarnan í huganum undir þær samræður og svara eins mér þykir líklegast að viðmælendur muni svara. Ég verð oft svo niðursokkin í þessar samræður að ég átta mig ekkert á að ég er farin að tala upphátt. Á sama hátt ræði ég iðulega við fjölskyldu eða vini í huganum og það er alveg jafnt um jákvæða og góða hluti eins og erfiða. Auk þess á ég ákaflega auðvelt með að halda uppi samræðum við sjálfa mig og rökræði af mikilli snilld um hin ýmsu málefni, allt í huganum. Þegar ég svo slysast til að segja eitthvað upphátt getur það verið afskaplega vandræðalegt og það hefur iðulega komið mér í koll. Í morgun t.d. var ég stödd niður í Kópavogsdal og var búin að halda uppi hörkusamræðum við sjálfa mig um heimspeki á göngunni. Á leið fram hjá fótboltavellinum fullyrti ég fullum rómi: „Þetta er hin versta hugsanavilla og alger rökleysa." Einhver mannvesalingur sem átti leið þarna um rak upp stór augu og horfði hvasst á mig. Ég reyndi eftir bestu getu að klóra í bakkann og hvæsti á hundvesalinginn sem skondraðist í kringum mig: „Já, þetta gengur alls ekki upp hjá þér, Freyja mín." Maðurinn hljóp við fót eins langt í burtu frá mér og hann komst.
Bloggar | Breytt 1.6.2007 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)