Kræsilegar kynningar

Ég eyddi helginni á sýningunni Veiði 2007, ekki vegna þess að ég sé svo mikill veiðimaður heldur af því að ég hef í tíu ár kynnt fyrirlestra á fundi hjá manninum sem skipulagði sýninguna. Hann heldur nokkrar sýningar ár hvert og í fyrsta skipti sem ég tók þátt í þessu hjá honum var ég sannfærð um að hann bæði mig aldrei aftur og að koma nálægt nokkrum hlut sem hann gerði. Þannig var nefnilega mál með vexti að ég hafði tekið eitt útrásarkastið og uppgötvaði daginn áður en sýningin átti að fara fram að ég passaði ekki neitt af frambærilegustu fötunum mínum. Ég reif mig því í Kringluna og keypti mér reglulega fínt pils og bol í Noa Noa. Helvíti fín og bara reglulega ánægð með mig mætti ég galvösk um morguninn og stýrði fyrirlestrum af mikilli röggsemi. Í hádegishlénu fór ég á klósettið og uppgötvaði að pilsið mitt fína var svaðalega gegnsætt. Eftir það var ég hin vandræðalegasta og kynnti fyrirlesarana sitjandi. Þetta virtist ekki hafa mikil áhrif á sýningarhaldarann því að ári hringdi hann í mig aftur og bað mig að koma og kynna fyrirlestra. Þegar ég sagði manninum mínum frá þessu himinglöð spurði hann: „Hvort ætlarðu að vera botnlaus eða topplaus í þetta sinn?“ Stundum er fyllilega réttlætanlegt að beita maka sinn ofbeldi.

En allt gekk sem sagt vel þessa helgi þótt ég væri fullklædd. Reyndar var ég rám sem hrafn því ég hef verið með svæsna hálsbólgu undanfarna daga og gengið fyrir sólhatti, C-vítamíni og lýsi. Þess á milli sýg ég hálstöflur og drekk berjate. Þrátt fyrir allt þetta er röddin eins og í Mae West og sumir myndu kannski kalla þetta sannkallaða svefnherbergisrödd. Ég er þá trú hefðinni þegar ég kynni fyrirlestra.


Bloggfærslur 6. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband