1.6.2007 | 16:27
Glæstur ferill á leiksviðinu
Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn, sérstaklega í ljósi þess að dóttir mín ætlar að reyna sig við leiklistina og hyggst taka inntökupróf í leiklistardeild Listaháskólans. Það rann upp fyrir mér við þessar vangaveltur að ég á að baki mjög skrautlegan feril á leiksviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Já, svona er okkur misjafnlega skammtað flotið að þessu leytinu líka. Eva hefur reyndar leikið ansi fjölbreytt hlutverk eða fullan prest, viðbjóðslega stjórnsama ömmu, hóru (ætli þetta sé einhver ættarsvipur sem leikstjórar falla fyrir), leynilögreglumann og heilalausa leiðindapíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)