Tækniraunir

Ég er sérlega lagin við að koma vélum í slíkt uppnám að þær funkera ekki rétt. Að því tilefni verð ég að segja ykkur raunasögu helgarinnar. Þar sem ég hef ritstýrt og skrifað í tvö blöð núna í maímánuði og fram í júní verður að játa að heimilið var orðið ágætiskandídat í þáttinn How Clean is Your Home? En því miður eru kjarnakonurnar bresku fjarri góðu gamni hér á landi þannig að ég varð að druslast til að taka til sjálf. Á föstudagskvöld var hafist handa við að skrúbba, bóna og þrífa ryk af húsgögnum. Á laugardagsmorgun var ryksugan svo tekin fram og byrjað að ryksjúga kofann. Eftir skamma stund gaf sig eitthvað í röri þessi hentuga tækis sem gerð það að verkum að ég datt fram fyrir mig og næstum niður í gólf. Engin leið var að laga þetta þannig að ég og vélin fórum eins og ryksjúgandi fornaldardýr um húsið ýmist uppréttar í fullri lengd eða samanherptar eins og Quasimodo í kirkjuturninum. Hreyfingarnar voru skrykkjóttar með afbrigðum og hvert meðalskrímsli hefði verið hreykið af slíkum tilþrifum. Þessi ósköp drógu svona frekar úr athafnagleði minni en ég varð að slá garðinn. Þar var um að litast eins og í þéttum regnskógi og meira að segja hundurinn átti orðið í basli með að ferðast þar um. Ég hófst handa með miklum látum og sló eins og herforingi eða allt þar til vélin steytti á steini sem lá vandlega falinn í frumskógarbotninum. Eftir það bar hún ekki sitt bar og murraði ískyggilega þegar ég setti hana í gang aftur. Skemmst er frá því að segja að hún dó frá hálfslegnum garði og ég stóð eftir slegin og hissa. Andri kom til bjargar í morgun og sló restina af garðinum með lánsvél en hér með er auglýst eftir taugasterkri sláttuvél á góðu verði.

Bloggfærslur 17. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband