Hvernig höndlar þú erfiðleikana?

Á föstudaginn var fórum við hjónin í matarboð til vinkonu minnar. Maðurinn hennar hefur mætt miklum erfiðleikum í lífinu og undir borðum barst talið að því sem Bretar og Bandaríkjamenn kalla „survival mechanism“. Hann sagðist ævinlega hafa hugsað með sér að almættið myndi ekki senda honum meira en hann gæti borið með góðu móti og sú hugsun færði honum styrk til að halda áfram. Meðan hann var að tala gerði ég mér grein fyrir að sjálf nota ég aðferð sem kölluð er „count your blessings“. Í hvert skipti sem vandræði mæta mér eða leiðindi banka upp á tel ég upp í huganum allt það góða sem er til staðar í lífi mínu og allt það sem ég er þakklát fyrir. Þetta gefur mér kraft til að mæta hverju sem er. Ég man líka alltaf eftir sögunni af gömlu konunni trúuðu sem var spurð þegar hvert reiðarslagið eftir annað reið yfir fjölskyldu hennar hvort hún bæði ekki guð að forða dætrunum frá meiri hörmungum. Sú gamla svaraði: „Nei en ég bið hann að veita þeim styrk til að takast á við erfiðleikana.“ Kannski erum við alltof hrædd við erfiðleikana og vantreystum okkur sjálfum. Líf mitt hefur alltaf verið auðvelt og mun meira af góðum hlutum sem ég get verið þakklát fyrir en vondum. Kannski er ég svona veik að guð hafi þess vegna ákveðið að hlífa mér.

Bloggfærslur 5. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband