Fyrstu kynni

Já, Gurrí mín var að biðja um söguna af því þegar ég heimsótti tengdaforeldra mína í fyrsta skipti. Ég var nítján ára unglingur, feimin og uppburðarlítil og eiginlega sannfærð um að þeim myndi ekkert lítast á þessa stúlku sem sonurinn var í slagtogi við. Ég sárkveið því fyrir og bað Gumma með reglulegu millibili að snúa við en tengdaforeldrar mínir bjuggu á Akureyri og tengdamamma býr þar enn en hún er nú ekkja. Jæja, ekki fékkst kærastinn til að snúa við þannig að við enduðum á tröppunum heima hjá tengdó þar sem heilsast var með handabandi. Útidyrahurðin var opin og ég ætlaði að koma í veg fyrir að hún skelltist þegar Gummi var að bera töskurnar inn og greip í húninn en ekki tókst betur til en svo að hann losnaði og ég hélt á honum í hendinni. Ég rétti tengdapabba hann vandræðaleg og sagði: „Hann datt af.“ „Já, já, hann var laus,“ sagði tengdapabbi heitinn glaðlega en ég hafði á tilfinningunni að það væri bara sagt til að mér liði betur. Ég var nú á því að varla hefði verið hægt að byrja verr en þegar við settumst að borðum seinna um kvöldið tóku hlutirnir stefnu niður á við og það hratt. Ég settist við borðstofuborðið þar sem mér var vísað til sætis og um var varla búin að snerta hnífapörin þegar stóllinn gaf sig og ég sat í brotunum á góflinu. „Hafðu engar áhyggjur, hann var brotinn fyrir,“ sagði tengdapabbi og núna trúði ég honum alls ekki. Tengdamamma kom með annan stól og þegar ég ætlaði að setjast í hann reyndi ég að fara eins varlega og hægt var. Ég var í gallabuxum með járnbólum á vösunum og án skyndilega heyrðist leiðinlegt skraphljóð. Bólurnar höfðu skrapað leðrið á stólbakinu og stóllinn ber þess merki enn í dag en tvær djúpar renndur liggja niður eftir öllu bakinu. Tengdapabbi hafði ekki orð á því að stóllinn hefði verið skrapaður fyrir en ég átti ekki von á að mér yrði nokkru sinni boðið heim til þeirra aftur.

Rebbarnir samir við sig

Ég er nýkomin af ættarmóti austur á Vopnafirði en móðir mín var fædd og uppalin að Refstað í þeim firði. Þetta var óskaplega skemmtilegt, enda skildist mér að margir hefðu haft orð á því í byggðarlaginu að þeir vildu vera fluga á vegg þar sem nokkrir rebbar kæmu saman, þar væri gaman. Á þessu sögulega móti bar það helst til tíðinda að maður nokkur var formlega ættleiddur en hann hefur árum saman öfundað bróður sinn af því að vera giftur inn í þessa merku ætt. Rebbar eru almennt hlýlegt fólk sem hrærist auðveldlega til meðlíðunar þannig að látið var að óskum mannsins og nú hefur hann sem sé öðlast rétt til að sitja ættarmót framtíðarinnar. Skorað var á mig að segja söguna af því þegar ég kom í mína fyrstu heimsókn til tengdaforeldra minna og varð ég við því. Sunginn var bragur sem einn frábær frændi minn hafði ort um ættina og þar sem afi minn var tvígiftur flutti Svava systir erindi um ömmu okkar og nöfnu sína en systursonur mömmu talaði um sína ömmu. Já, þetta er yndislegt fólk og ég hef oft verið ánægð með hvað ég er heppin að stórfjölskylda mín er þetta náin og þetta skemmtileg. Rebbar tala óskaplega mikið en eru almennt orðheppið og skemmtilegt fólk sem bjargar því að sárasjaldan drepast viðmælendur þeirra úr leiðindum. Rebbar eru líka tilfinningaríkir og ákafamanneskjur á flestum sviðum og mér skilst að sögur séu sagðar af sumum frænda minna í sjö sýslum.

Bloggfærslur 24. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband