Í mínum villtustu draumum

Ef draumar endurspegla undirmeðvitund manns er ég ekki alveg viss um að mig langi til að kynnast þeirri persónu sem leynist undir yfirborðinu hjá mér. Draumar mínir eru nefnilega með eindæmum ruglaðir oft og tíðum. Til að mynda dreymdi mig í nótt að ég væri stödd á dansleik og maður að nafni Lalli elti mig út um allt til að reyna að kyssa mig. Ég kærði mig ekkert um kossa hans, enda var hann yfirmátakauðalegur langur og mjór með stórt nef. Hann minnti einna helst á lýsinguna á Guðmundi, syni Bárðar á Búrfelli úr Pilt og stúlku sem við öll munum sem lásum Lesbók nr. eitthvað í barnaskóla. Ég setti þó ekki útlit mannsins mest fyrir mig heldur fannst mér í draumnum það lýta hann einna mest að hann héti Lalli. Já og í ofanálag hefur bergmálað í hausnum á mér í allan dag ljóðlína eftir Steinunni Sigurðardóttur: „Sál mín var dvergur á dansleik í gær.“ Þetta getur ekki verið eðlilegt.

Bloggfærslur 16. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband