29.8.2007 | 19:21
Haustlitir
Hvert sem litið er minnir haustið á sig. Haustlitirnir birtast í gluggum tískuverslana og á laufinu á trjánum. Súldin og rigningin eru líka óhjákvæmilegur fylgifiskur haustsins. Mér finnst þetta dásamlegur tími. Tískan mun fallegri og skemmtilegri en sumartískan. Það er eitthvað svo varanlegt og traust við klassísk sniðin, brúna, gráa og fjólubláa litina. Það er líka fátt skemmtilegra en að tína njóla, beitilyng og óæt ber til að bera inn í húsið og skreyta með. Reyniber, rósaber og sortuber eru tilvalin. Hálfsölnuð grös, lauf og aðrar haustlegar jurtir eru líka frábært skraut. Reyndar hrynur svolítið af þessu en skítt með það. Ég hef að vísu ekki tínt hvönn síðan eldhúsveggurinn lifnaði við hjá mér forðum en allt annað tíni ég enn. Hvannarskrattarnir eru nefnilega hættulegar að því leyti að alls konar skorkvikindi gera sér heimili í stönglunumm þegar líða tekur á sumarið. Ég vissi þetta ekki og tíndi risavönd af glæsilegri ætihvönn í Elliðaárdalnum. Ég hengdi hann til þerris í eldhúsloftið og nokkru síðar leit ég upp úr eldamennskunni og sá hvar heil herdeild svartra bjalla stormaði niður eldhúsvegginn hjá mér í von um að finna vænlegri bústað en deyjandi hvannastóð. Ég æpti upp yfir mig, fleygði hvönninni í ruslið og sótthreinsaði eldhúsið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)