Niðrandi orð og skrauthvörf

Ég hef áður gert að umtalsefni hér á blogginu hvað það fer í taugarnar á mér þegar pólitísk rétthugsun fer að ná til orða og hreinsa þarf málið af einhverjum orðum vegna þess að þau eru ekki nægilega virðuleg. Ég hef þá trú að við eigum að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og það er ekkert ljótt við raunveruleikann. Jóna Á. Gísladóttur fær komment á bloggið sitt vegna þess að hún kallar son sinn þann einhverfa. Drengurinn er einhverfur og hún er ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr honum með því að þessu móti. Ef einhver mér nákominn væri blindur eða haltur þætti mér ekkert ljótt við að tala um þann halta eða þann blinda. Við systur kölluðum föður okkar stundum stafkarlinn eftir að hann fór að ganga við staf. Við kölluðum hann líka Pollýönnu því hann var bölsýnasti maður sem við höfðum kynnst. Hvorugt var meint á niðrandi hátt. Ég hef aldrei skilið þessa viðkvæmni fyrir fötlun. Fólk er svona eða hinssegin og fötlun er eitt af fjölmörgum litbrigðum lífsins hvort sem menn eru eineygðir, geðveikir, haltir eða í hjólastól. Við þurfum ekki að ganga á tánum í kringum þá sem þannig er ástatt um og hvísla hvert að öðru: Hann er blindur. Blinda er hluti af manninum rétt eins og nefið, eyrun eða hendurnar og jafnsjálfsagt að tala um hana og handastærðina. Mér finnst reyndar meira niðrandi að segja sá nefstóri eða maðurinn með tröllahendurnar en að segja sá blindi en það er önnur saga.

Bloggfærslur 2. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband