14.1.2008 | 13:12
Eitt eða tvö augu
Vog: Fyrir meira en 400 árum síðan, sagði hinn vitri Erasmus: "Í blindra manna landi, er sá eineygði konungur". Varaðu þig á fólki með takmarkaða sýn sem leiðir þá með enga sýn.
Þetta er stjörnuspáin mín í dag. Þegar ég las þetta rifjaðist upp fyrir mér saga sem ég las í ensku í menntaskóla. Mig minnir að titillinn hafi einmitt verið þetta spakmæli en sagan fjallaði um mann sem lenti í flugslysi hátt uppi í afskekktum fjöllum og endaði í dal þar sem allir íbúarnir voru blindir. Í byrjun hugsaði hann sér gott til glóðarinnar og taldi að þar sem hann hefði sjónina fram yfir þá innfæddu myndi hann fljótt ná æðstu völdum á staðnum. Í ljós kom hins vegar að fólkið var vel aðlagað sjónleysinu og hinn sjáandi var í verstu vandræðum með að komast af. Hinir blindu leiddu því þann sjáandi. Mér fannst þetta mjög sláandi og skemmtileg saga og hún segir mér að þeir sem hafa takmarkaða sýn eða enga geta líka kennt okkur og eru sennilega bara alls ekkert varasamir. Óðinn var eineygður og sá þó um veröld alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)