20.1.2008 | 17:12
Nú er frost á Fróni
Í morgun fór ég með Freyju út að Gróttu. Við gengum út í eyju og skoðuðum okkur um í fjörunni og ég fann lítinn fallegan hörpudisk og fjóra gula kuðunga. Það var svo einstaklega gott veður. Snæfellsjökull út við sjóndeildarhring, snjór og sól. Reyndar var skítkalt en ég var vel búin svo það gerði ekkert til. Vetrarfegurð eins og hún gerist best. Við gengum úr fjörunni niður að fiskhjalli sem þarna er. Þar fyrir neðan er manngerður bolli í stein og í honum heitt vatn. Ég veit ekki hvort þetta er hugsað fyrir göngufólk til að hlýja kaldar hendur eða hvað en þetta er skemmtileg viðbót við annað þarna. Um það bil tuttugu endur voru á sundi á litlum polli þarna fyrir neðan og þeim brá illa við þegar friðarspillirinn Freyja birtist með glæfralegt glott á vör og skottið titrandi af veiðihug. Þær syntu gargandi út að ystu brún pollsins en þegar þær áttuðu sig á því að ógnvaldurinn var í bandi róuðust þær. Allt í kring var fólk á gangi með börn, hunda, á gönguskíðum eða í stórum hópum. Loftið var svo hreint og hressandi að við snerum heim endurnærðar og fullar orku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)