29.1.2008 | 15:15
Hundum og hröfnum að leik
Í hverfinu mínu býr töluvert af eldri borgurum og það er auðfundið að þeim er vel við hrafninn. Raðhúsin sem ég geng framhjá með tíkina á hverjum morgni eru stundum þakin þessum svörtu tígullegu fuglum og ég hafði ákaflega gaman af þessu þangað til ég uppgötvaði að þarna var hængur á. Fólkið setur nefnilega út mat handa vinunum sínum svörtu og tíkin mín er ekki lengi að finna birgðirnar. Ég hef ekki tölu yfir þá morgna sem ég stend í versta basli við draga hana burtu frá eplum, brauðmolum og ýmsu sem henni finnst sér bera skylda til að smakka líklega af tómri illkvittni því hún leggur sér venjulega ekki slíkt ómeti til munns. Í morgun var hún hins vegar svo heppin að finna stórt bein með þónokkrum kjöttægjum á. Mér fannst það ekki kræsilegt en tíkin bar þetta hróðug í munninum heim. Nokkrum sinnum reyndi ég að ná því af henni en uppskar ekki annað en urr og flótta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)