18.11.2008 | 15:26
Óbjörgulegar björgunaraðgerðir
Ég lofaði sjálfri mér fyrir nokkru að tala ekki um og hugsa ekki um ástandið í samfélaginu en nú er mér nóg boðið. Ríkisstjórnin kynnir björgunarpakka sem miðar að því að létta greiðslubyrði heimilanna en það eina sem hann felur í sér er gálgafrestur þannig að við verðum að gera svo vel að vinna fram í andlátið ef við ætlum að ljúka við húsnæðislánin okkar. Við verðum ellilífeyrisþegar sligaðir af skuldum og vanlíðan. Okkur er einnig boðið að gefast upp, missa húsnæðið í hendur ríkisins og gerast leigjendur hjá hinu opinbera án þess að nokkrar bætur komi fyrir eignamissinn. Fólk sem átti í fasteign sinni nokkrar milljónir sér að baki þeim en fær að leigja sitt eigið húsnæði. Hverslags rökleysa er þetta? Allt vegna þess að tíu litlir bankastrákar fengu að leika sér óáreittir af þeim yfirvöldum sem áttu að hafa auga með þeim. Og það allra besta er svo að Davíð einkavæðingarforkólfur sem seldi þeim bankana segist ekkert hafa gert á hluta neins heldur þvert á móti hafi hann staðið sem klettur í hafinu og reynt að stemma stigu við vitleysunni. Manni verður óglatt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)