Að spila með eða sitja hjá

Að undanförnu hafa þau Sigurður G. Guðjónsson og Agnes Bragadóttir verið reglulegir gestir í Íslandi í dag þar sem þau hafa fengið að kryfja fréttir vikunnar. Sigurður hefur aftur og aftur sagt upp í opið geðið á okkur, íslenskum almenningi, að við höfum spilað með í bruðli og rugli síðustu ára. Að við séum flatskjárfólkið sem gapti upp í útrásarvíkingana og eigi nú timburmennina eftir raftækjafylleríið skilda. Ég verð að mótmæla. Nú veit ég ekki hverja Sigurður G. umgengst dagsdaglega en ég veit að enginn af mínum vinum eða nánustu fjölskyldu horfði aðdáunaraugum á útrásarkóngana. Þvert á móti vorum við reið og hneyksluð yfir ofurlaunu, sóun og rugli í skjóli bankanna. Okkur fannst auðnum sóað í einskisnýtt rugl í stað þess að styrkja stoðir og innviði samfélagsins. Við vorum hins vegar afllaus að stöðva ruglið eða sáum að minnsta kosti engar leiðir til þess eftir að íslenskir kjósendur gáfu atkvæði sitt þeim mönnum sem studdu við þetta og hófu það. Ég var aldrei hreykin af útrás Íslendinga eða útrásarvíkingum. Þvert á móti, ég skammaðist mín soldið fyrir gírugheit þeirra, hroka og stórlæti. Ég kom til Kaupmannahafnar í fyrsta skipti í sumar og naut leiðsagnar systur minnar um borgina. Mér fannst dásamlegt að sjá litlu hafmeyjuna en þegar ég steig inn í Hviids vinstue eftir að hafa heimsótt Magazine du Nord fann ég ekki til neinnar sigurgleði. Hugsunin loksins er þín fullhefnt ástmögur þjóðarinnar var víðsfjarri mér, enda sá ég ekki að íslenskt eignarhald á einhverri verslanamiðstöð væri eitthvað sérstaklega til að hreykja sér af. Ég er ekki meðal flatskjárfólksins. Sjónvarpið mitt er níu ára gamalt og öll önnur rafmagnstæki mun eldri. Kæliskápurinn er yngsta tækið á heimilinu keypt þegar ég flutti vegna þess að sá gamli passaði ekki inn í eldhúsið. Í fyrsta sinn á ég uppþvottavél af því að hún fylgdi í kaupunum á nýju íbúðinni en í þrjátíu ár hef ég vaskað upp handvirkt. Sigurður G. Guðjónsson kannski eiga þú og þínir líkar skilið að sitja með hausverk allar helgar hér eftir en ég og mínir líkar erum að taka út refsingu sem samræmist ekki á glæpnum því það eina sem við erum sek um er að hafa ekki mótmælt bruðlinu, flottræfilshættinum og yfirgangi útrásarvíkinganna nægilega hátt.

Bloggfærslur 6. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband