13.2.2008 | 13:54
Kjartan og svanurinn
Heidi Strand er með frábæra fuglasögu á blogginu sínu sem ég vil endilega benda ykkur á en er of tæknifötluð til að geta búið til link á hana. Af því tilefni vil ég líka deila með ykkur bestu sögu sem ég hef heyrt af viðskiptum við fiðraða vini vora. Maðurinn minn og vinur hans, sem við skulum kalla Kjartan, voru á leið heim eftir gleðskap en báðir voru milli tektar og tvítugs þegar þetta var. Þeir voru búsettir á Akureyri og áttu leið framhjá andapollinum. Svanahjón höfðu hreiðrað þar um sig og ungarnir nýkomnir úr eggjunum. Kjartan var í góðu skapi og vildi tala við fuglana og lýsa aðdáun á elju þeirra við hreiðurgerð og uppeldi. Hann teygði sig inn fyrir girðinguna og rétti fram handlegg og gúaði eitthvað svona eins og menn gera í átt að ungbörnum. Svanurinn fyrrtist við, enda fullorðinn og ekki fyrir svona væmni og svaraði með reiðigargi og vængjaslætti. Kjartan ákvað því að bregða sér inn fyrir girðinguna svona til að sýna að hann færi með friði og þá skipti engum togum að svanurinn réðst á hann. Pilturinn reyndi að taka á móti og verja sig en átti ekkert í þennan stóra reiða fugl. Skyndilega birtust lögreglumenn sem sáu að við svo búið mátti ekki standa og vippuðu sér því inn í girðinguna, skildu þá félaga og skelltu handjárnum á Kjartan. Hann brást hinn reiðasti við og sagði sár: Til hvers eruð þið að handtaka mig? Það var hann sem byrjaði. Og benti titrandi fingri á svaninn. Sá sat hins vegar hróðugur og horfði yfir óðal sitt sem nú var frítt af öllum óboðnum gestum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)