12.3.2008 | 09:51
Af handlagni og miskunnsemi
Þórhildur Elínardóttir skrifar um það í góðum Bakþankapistli í Fréttablaðinu í dag að hún hafi einu sinni fengið 1 í handvinnu aðallega fyrir miskunsemi og gæsku kennarans. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér ferill minn í handvinnu í skóla og sá var ekki glæstur. Í það sem þá var kallað annar bekkur í gaggó en er núna níundi fékk ég 5 í handvinnu. Verkefni vetrarins voru að prjóna skó með sauðskinnskólagi og rósaleppa inn í þá, sauma buxur á sjálfa sig og sauma út í dúk. Eftir veturinn skilaði ég skóm, annar mældist sennilega nr. 38 en hinn 48 ef haft hefði verið fyrir að slá venjulegu skómáli á sköpunina. Rósalepparnir voru teygðir og togaðir, mynstrið fremur óhrjálegt. Buxurnar voru með útvíðri skálm öðru megin og þröngar niður hinum megin. Ísetan var skökk og ekki nokkur leið að koma streng á óskapnaðinn. Mér tókst aldrei að byrja á dúknum þannig að ég skilaði bara þessu tvennu. Handavinnukennarinn minn var vel roskin óskaplega blíð kona. Hún horfði um stund á vetrarvinnuna mína og sagði: Steingerður mín, þú ert góð stúlka. Ég skal gefa þér fimm. Ertu ánægð með það? Ég var auðvitað himinsæl, enda verður að segjast eins og er að sjaldan hef nokkur einkunn sem ég hef fengið verið jafnóverðskulduð og þessi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)