21.3.2008 | 23:57
Blásið og hvásið
Við Freyja fórum í bíltúr með suðurströnd Reykjaness í dag ásamt Sivvu vinkonu minni og Bjarna í dag. Það var yndislegt vorveður og náttúran ótrúlega falleg. Kleifarvatnið var frosið þótt við þyrðum ekki að treysta á ísinn að minnsta kosti ekki nægilega til að ganga út á vatnið. Freyja fékk að hlaupa um í sandfjöru í vík við vatnið og næst stoppuðum við í Selvogi. Sólin merlaði á sjónum sem var kyrr úti fyrir en við ströndina brotnuðu stórar brimöldur á skerjum. Fullt af fólki hafði sótt messu í Strandakirkju og sumir voru að leik í fjörunni en aðrir sátu á hafnargarðinum og horfðu út á sjó. Ég vonaðist til að sjá seli en í stað þeirra syntu um hvalir og blésu af og til fyrir jafnt þá kristilegu og hina ókristilegu. Ég hljóp niður í bíl til að sækja kíkinn og Freyja trylltist hjá Sivvu um leið og hún sá mig fara af stað. Hún ýlfraði og gjammaði og rykkti svo í tauminn að litlu mátti muna að Sivva dytti framfyrir sig. Við veitingastaðinn Hafið bláa fengum við okkur kaffi sem Sivva hafði hellt upp á brúsa fyrir okkur og þar lék selur listir fyrir okkur rétt utan við ströndina. Hann hélt sig innan við brimgarðinn og kíkti forvitinn á göngufólk í fjörunni. Ferðina enduðum við í humarsúpu Við fjöruborðið. Þetta var virkilega skemmtilegt.
Bloggar | Breytt 22.3.2008 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)