18.4.2008 | 16:20
Meinleg uppákoma
Eftir hádegi í dag þurfti ég að sitja fund sem teygðist nokkuð lengur en ég átti von á. Þannig háttaði til á fundarstaðnum að ekki var hægt að komast þar á klósett. Ég hafði nýlega innbyrt hádegisverð og kaffi á eftir þannig að fljótlega fór ég að finna allóþyrmilega fyrir því að mig langaði að heimsækja hreinlegt postulínstæki af þeirri tegund sem enginn getur verið án. Fundurinn hélt svo áfram að dragast á langinn og erindi mitt á þennan friðsæla stað varð sífellt brýnna. Loksins lauk þessum ósköpum og ég bókstaflega flaug út í bíl. Ég keyrði í loftköstum upp í vinnu og skreið í keng út úr bílnum og inn á klósett, skíthrædd um að pissa hreinlega á mig. Mikið lifandis ósköp og skelfing var það góð tilfinning að setjast á salernið og losa mig við vökvann. Ég þarf sennilega ekki að fjölyrða um það því allir sem einhvern tíma hafa reynt eitthvað viðlíka skilja mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)