Hversdagsgæði og veislugrimmd

Einu sinni heyrði ég sagt af því að kona sem var að undirbúa gullbrúðkaup sitt hefði verið spurð að því hvað væri svo gott við eiginmann hennar að það gerði að verkum að samband þeirra hefði enst svo vel. Hún svaraði: Hann Jón minn er veislugrimmur en hversdagsgóður. Hún átti við það að karl hennar fór yfirleitt með veggjum í veislum, leiddist þær og vildi fremur halda sig heima en blanda sér í glaum og gleði nágrannanna. Heima fyrir var hann svo eins og hún lýsti hversdagsgóður. Mér hefur alltaf fundist þetta frábær mannlýsing og held að hversdagsgóðir menn séu mun betri en þeir sem njóta sín í veislum og á mannamótum en eru hálffúlir og leiðinlegir heima fyrir.

Vinsældir og raunveruleikaþættir

Raunveruleikaþættir þar sem almenningi gefst kostur á að kjósa besta söngvarann, hæfileikaríkasta dansarann eða efnilegasta innanhúsarkitektinn geta verið bráðskemmtilegir en flestir gera sér grein fyrir að það er ekki eingöngu hæfni hvers og eins sem sker úr um í hvaða sæti hann lendir í keppninni. Persónuleiki keppandans hefur mikið að segja. Tekst honum að afla sér vinsælda meðal áhorfenda? Hefur hann útgeislunina sem til þarf? Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á lokaþátt Hæðarinnar. Beggi og Pacas unnu og voru vel að sigrinum komnir. Þeir innréttuðu heimilislegt og fallegt hús og þeir virkuðu vel fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Elísabet og Hreiðar minntu flesta á hinn bóginn alltof illilega á englaparið í skólanum sem sat heima þegar allir aðrir skemmtu sér og hegðuðu sér eins og heimskir unglingar. Hann við að leggja á ráðin um hvernig mætti vera sem ábyggilegastur fjölskyldufaðir en hún við að bæta í safnið í brúðarkistunni, bútasaumsteppum, útsaumuðum skírnarkjólum og dúkum með harðangri og klaustri. Ég efast ekki um að Elísabet og Hreiðar eru besta fólk, húmoristar og bráðfjörug en þau liðu fyrir hversu óþyrmilega þau minntu á ofannefndar steríótýpur. (Eða það er mitt álit. Ég beið eftir að lesa um það í blöðunum að Elísabet hefði keypt sér stálull og ætlaði að prjóna ísskáp í húsið sitt á Hæðinni.) Steinunn og Brynjar virkuðu aftur á móti hræðilega illa. Hún var eitthvað svo óeinlæg eða tilgerðarleg, eins og ein vinkona mín orðaði það. Flestir höfðu á tilfinningunni að hún væri að leika hlutverk ungu, saklausu konunnar sem horfði stóreyg og jákvæð á heiminn. Hann fékk hins vegar alla upp á móti sér með hrokanum. Þau boruðu allar nætur vegna eigin skipulagsleysis og hann gaf svo skít í nágrannana sem voru pirraðir á að fá ekki að sofa fyrir þeim. Allflestir hafa kynnst þessum týpum í fjölbýlishúsum og engin von til að menn kjósi þær til sigurs í keppni. Já, menn verða að vara sig á sjónvarpsvélunum. Þær geta fegrað þig en líka bætt kílóum við galla þína bæði ytri sem innri. En það er gaman að velta fyrir sér svona þáttum og því hvernig sumir kappkosta að sýna sig í sem bestu ljósi en aðrir leyfa áhorfendum að gægjast undir yfirborðið og sjá aðeins í gallana.

Bloggfærslur 12. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband