Sokkabuxurnar áspreyjuðu

Stundum sigrar bjartsýnin reynsluna, nokkuð oft reyndar þegar ég á í hlut og sagan af áspreyjuðu sokkabuxunum er sorglegt dæmi um það. Til okkar upp á Viku þegar ég var að vinna þar kom glæsileg ung kona, nýkjörin Ungfrú Ísland, í myndatöku. Hún var með spreybrúsa með sér og úðaði reglulega úr honum á fótleggi sína og mér lék forvitni á að vita hvað þetta væri. Hún sagði þetta algjört galdraefni sem kæmi algjörlega í stað sokkabuxna. Maður spreyjaði bara yfir lappirnar og þær yrðu fallega brúnar en jafnframt myndaðist eins og himna sem gerði þá einkar glæsilega. Ég er alræmdur sokkabuxnamorðingi og kveður svo rammt að þeim ósköpum að aðeins allra þykkustu buxur þeirrar gerðar lifa af kvöldstund með mér. Mér fannst þetta því alveg kjörið fyrir manneskju eins og mig. Hver brúsi entist í fjögur til fimm skipti að sögn fegurðardísarinnar og kostaði eitthvað um 2000 kr. Næst þegar sokkabuxnatilefni var í fjölskyldunni skundaði ég í næsta apótek og keypti sokkabuxnaspreyið góða. Ég stillti mér upp á holinu og byrjaði að úða með sömu tilburðum og hún hafði notað. Sveigði mig og teygði með einkar fallegum og ballettlegum sveiflum. Teygði mig aftur fyrir og út um allt. Síðan leit ég yfir dýrðina. Ég er ákaflega lappalöng og nú litu fæturnir á mér út eins leggir á skjöldóttri kú. Sums staðar var ég dökk, annars staðar ljós og víða voru hvítar skellur. Ég bar mig upp við minn handlagna eiginmann sem löngum hefur reddað brotnum nöglum, hakkavélum með kökugöfflum föstum í og ýmsu fleiru tilfallandi á þessu heimili. Hann var sammála því að svona færi ég ekki úr húsi og mundaði því brúsann og lét vaða. Skemmst er frá því að segja að hann spreyjaði og spreyjaði en alltaf var ég jafnskellótt og skrautleg. Á endanum var ekki tími fyrir fleiri æfingar og að auki ekki meira eftir í brúsanum góða en sem svaraði áspreyjuðum sokkabuxum á mýflugu. Við urðum að fara. Fæturnir á mér voru mattir og stamir svo ég gat ekki gengið öðruvísi en með lærin vel í sundur. (Reynið það á fimm sentímetra háum hælum og í A-pilsi.) Ég sýndi umtalsverða lagni við það en innkoman í veisluna var sannarlega ekki tíguleg. Ég reyndi að laumast inn og gekk eins og ég væri með tunnu í klofinu að næsta sæti. Mér tókst að reka mig utan í mannvesaling á leiðinni og skilja eftir brúna skellu á gallabuxunum hans. (Ávirðing sem ég steinþagði yfir). Síðan settist ég við næsta borð og faldi fæturnar undir síðum dúknum. Þar sat ég allt kvöld háð eiginmanninum um vott og þurrt og þegar ég stóð upp voru lærin traustlega límd saman. Það var ekki gott að slíta þau í sundur en í dag kaupi ég venjulegar sokkabuxur og ríf þær klukkustundu eftir að ég fór í þær. Dreg varabuxurnar upp úr töskunni og sama ferlið hefst á ný.

Bloggfærslur 14. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband