Slegist um krásina

Ég hrökk upp við það klukkan tvö í nótt að tíkin hentist undan rúminu mínu og hljóp á eftir Matta. Við tók gelt og gá, hvæs og dynkir svo ég fór niður til að gá hvað væri að gerast. Matti var þá með fugl í kjaftinum og Freyja var ákveðin í að fá bita af krásinni. Kötturinn Matise er þekktur fyrir flest annað en að gefast auðveldlega upp svo hann æddi um hús með bráð sína í kjaftinum og stökk upp á húsgögn. Þaðan hvæsti hann á hundinn sem flaðraði upp um skápa og eldhúsinnréttingar og gelti. Ég kom svo síðustu sussandi og hvíslandi: Nei, Freyja, nei, þegiðu þetta má ekki. Ekkert sérlega áhrifríkt þegar maður um miðja nótt vill ekki auka enn frekar á skarkalann með því að æpa. Að lokum brá ég á það ráð að grípa tíkina og loka hana inni á geymslugangi. Þar ýlfraði hún, krafsaði í dyrnar og kastaði sér á þær meðan ég elti Matti með það í huga að koma bitbeini þessara tveggja út úr húsinu. Hann var auðvitað ekkert frekar á því að láta mig hafa fuglinn en hundinn svo góður klukkutími leið áður en mér tókst að koma fuglinum í tunnuna og dýrunum í ró. Þá tóku við þrif því húsið var allt út í blóðslettum og fiðri. Ég sofnaði ekki fyrr en um sjö í morgun og treysti mér því ekki í vinnuna. Já, það fylgja því ýmsir ókostir að eiga dýr.

Bloggfærslur 12. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband