27.7.2008 | 19:53
Tungumálaörðugleikar?
Þær systur mínar komum í kaffi í dag og ég nefndi við þær að ég hefði verið við leiðsögn í gær. Aðspurð um hverja ég hefði leiðsagt um landið sagði ég: Æ! það var hellingur af Eistum. Úps! um leið og ég sleppti orðinu var mér ljóst að þetta gat misskilist og ekki hvað síst vegna þess að ég bætti við að mér líkaði sérlega vel við þá. Upp úr þessu spunnust umræður um nöfn og Svava systir trúði okkur fyrir því að þegar hún vann á vegum Nordjobb í Finnlandi forðum daga unnu með henni tvær stúlkur sem hétu Auli og Æla. Svanhildur bætti þá um betur og kvaðst þekkja finnska konu sem héti Meri. Ragnar mágur minn sló hins vegar allt út með að segja sögu af konu sem giftist inn í virðulega gamla evrópska aðalsætt sem auðvitað var hið besta mál að öðru leyti en því að ættarnafnið var Pika og borið fram með í. Ekki gaman fyrir móður að segja frá í veislum: Á morgun kemur dóttir mín, barónessa Píka til Íslands í heimsókn. Einhvern veginn dregur seinni hlutinn verulega úr fínheitum barónessunnar.
Bloggar | Breytt 28.7.2008 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)