Brennandi ást

downloadÞetta rauða það er ástin, eftir Rögnu Sigurðardóttur er áhrifamikil  kvennasaga. Ég segi kvennasaga, ekki vegna þess að ég telji að hún eigi ekki erindi við karlmenn eða öll önnur kyn, það á hún sannarlega, en ég held að eingöngu konur geti beinlínis upplifað andlega og líkamlega þann sársauka sem lýst er í bókinni. Þessi togstreita milli þess að eiga möguleika á að láta drauma sína rætast, læra það sem hugur manns stendur til og að gangast undir það hlutverk sem samfélagið ætlar manni. Þungunarrof er aldrei létt ákvörðun, ekki bara þung og erfið hugræn togstreita heldur einnig líkamleg átök því konur finna snemma fyrir breytingum. Þær skynja barnsvonina í vöðvum og taugum.

Elsa, söguhetjan í Þetta rauða, það er ástin, er nýkomin út til Frakklands, komin í læri til virts málara og sér raunverulega möguleika á að geta náð árangri í list sinni. Þá uppgötvar hún að hún er ófrísk og þarf að taka ákvörðun. Í stöðunni er enginn góður kostur og einhverju verður að fórna það er ljóst. Sagan gerist á sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar, þungunarrof er ólöglegt. Þótt viðhorf hafi mikið breyst á þeim áratugum sem liðnir eru síðan þá eru enn dæmi þess að konur séu kallaðar morðingjar kjósi þær að binda enda á þungun. Á þessum árum var viðhorfið mun útbreiddara og lítillar samúðar eða skilnings að vænta.

Ragna skrifar þessa sögu af fádæma næmni og bókin er svo spennandi að ég mæli með að byrja ekki á henni nema menn hafi nægan tíma til að klára. Samt veit lesandinn frá upphafi að þetta mun ekki enda með brúðkaupi og hamingju upp frá því. En ung kona með köllun og hæfileika á ekki að þurfa að standa frammi fyrir vali eins og þarna er lýst.

Það eru svo margvísleg hugrenningatengsl sem þessi bók kallar fram. Mér varð fyrst hugsað til þess að ekki er langt síðan, aðeins rétt öld, að konum var meinað að læra listir. Þær máttu leika sér með vatnsliti en olíulitir og höggmyndalist var ekki á þeirra færi. Elsa er meðal frumkvöðla, örfáar konur stunduðu listnám af alvöru á þessum árum. Hún fann köllun sína ung, fann líkamlega að ástundun listar væri henni lífsnauðsynleg. Þegar hún svo stendur frammi fyrir því að velja milli framtíðardraumanna og barnsins sem hún gekk með vaknaði aftur sorgin yfir stöðu kvenna víða um heim. Þegar ég las Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood árið 1986 lokaði ég bókinni að lestri loknum með feginsandvarpi. Þetta gæti aldrei gerst hér á Vesturlöndum. Distópía höfundar væri bara áhugaverður vísindaskáldskapur svona rétt eins og 1984 eftir George Orwell. 

En svo minntist ég valdatökunnar í Íran, á bókstaflega nokkrum klukkustundum, eftir endurkomu Khomeini árið 1979, hurfu konur af götunum. Kvenlæknar af sjúkrahúsum, kvenlögfræðingar af stofum sínum, hárgreiðslukonur lokuðu eða ráku fyrirtæki sín í skjóli eigmanna hið sama átti við um búðareigendur. Allar klæddust þær búrkum og hurfu inn á heimilin. Hið sama gerðist undir stjórn talíbana í Afganistan á tíunda áratug síðustu aldar og er að gerast þar aftur í dag. Nú og svo eru öllum sýnilegar afleiðingar þess að hæstaréttardómnum Roe gegn Wade var snúið í hæstarétti Bandaríkjanna í sumar. Nú þegar hafa nokkur ríki bannað þungunarrof og búist við að fleiri fylgi í kjölfarið. Þess má einnig geta að þrátt fyrir gífurlegar vinsældir sjónvarpsþátta sem eru spunnir upp úr The Handmaids Tale eykst stöðugt staðgöngumæðrun og einhvers konar barnaverksmiðjur starfa í ríkjum eins og Indlandi þar sem konur ganga með börn Vesturlandabúa sem greiða stórfé fyrir en mér er til efs að nema brot af því endi í vasa kvennanna. Það er nefnilega svo auðvelt að gleyma hvernig hlutirnir voru, hvað konur bjuggu við margháttaða og hættulega kúgun. Þess vegna verðum við að halda vöku okkar. Saga Rögnu er frábær skáldsaga en samt svo sönn. Þetta rauða er ástin, svo hlý og notaleg að verma sig við en svo svíðandi heit þegar frelsi einstaklingsins er skert. 


Bloggfærslur 17. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband