Þessa heims og annars

download

Á fyrstu árum tuttugustu aldar gekk mikið á í Reykjavík, húsgögn lyftust og skullu niður eða flugu veggja á milli, hlutir voru hrifnir úr höndum manna og kastað til og ungur maður lyftist úr rúmi sínu og sveif um. Velvildarmaður hans kastaði sér á hann til að reyna að koma honum til bjargar en þá lyftust þeir báðir. Margar frásagnir eru varðveittar af Indriða Indriðasyni miðli en utan um hann var stofnað Tilraunafélagið þar sem íslenskir mektarmenn komu saman til að rannsaka þessa ótrúlegu hæfileika. Indriði náði ekki þrítugsaldri en hefur engu að síður orðið þjóðinni ógleymanlegur og nú hefur Hermann Stefánsson skrifað skáldsögu sem hverfist um hann og rannsóknirnar sem gerðar voru á miðilshæfileikum hans. Inni í þetta fléttast svo pólitísk átök þessa tíma, sjálfstæðisbaráttan, stjórnarskrármálið og kvenréttindahreyfingin en hún er þarna að mótast hugmyndafræðilega og byrja að hafa áhrif.

Þetta er stórskemmtileg saga, skrifuð á frumlegan hátt og af mikilli orðgnótt. Hermann er fyndinn og byggir kímnina á úrdrætti eða því sem á ensku kallast understatement. Það er sérstaklega skemmtilegur húmor. Hann gerir sér líka að leik að rifja upp flámælið, stafsetningu gamals tíma og orðfæri. Mikið var gaman að sjá zetuna dansa aftur um síðurnar.

Sagan sjálf kann að virðast létt á yfirborðinu en þarna mætast raunhyggja vísindamannsins og sannfæring trúaðra á handanheima og takast á. Spíristismi á Íslandi var angi af stórri hreyfingu í Evrópu og Norður-Ameríku. Ekki ómerkari menn en Harry Houdini og Sir Arthur Conan Doyle voru áberandi í leitinni að tengingu milli þessa heims og annars. Einar H. Kvaran, Haraldur Níelsson, Björn Þorláksson og fleiri voru hins vegar í fararbroddi hér og eru þeir allir sögupersónur í bók Hermanns. Það eru langafi hans og langamma líka, læknishjónin Jannes og Mekkín, en fyrirmynd þeirra eru Guðmundur Hannesson og Karólína Margrét Sigríður Ísleifsdóttir Breiðfjörð. Þau sem persónur eru einstaklega áhugaverð og skemmtileg. Mekkín er sjálfstæð kona, engin framlenging af manni sínum og hefur gaman af að ganga ofurlítið fram af broddborgurum Reykjavíkur.

Jannes læknir er vísindamaður og lítur á tilraunirnar með að brúa bilið milli lifenda og dauðra sem hindurvitni og Mekkín er sammála honum. Eftir ýmsar uppákomur  fellst læknirinn samt á að rannsaka unga millibilsmanninn Tindra Jónsson. Fetar þar í fótspor Houdinis sem kom upp um marga svikamiðla og ekki rétt að spilla ánægju lesanda af því að komast að hvernig það fer. 

Enn í dag á spíritisminn fylgjendur hér á landi og margir eru sannfærðir um að hægt sé að ná sambandi við framliðna með hjálp miðla eða millibilsmanna. Mér fannst óskaplega gaman að lesa Millibilsmanninn því afi minn var spíritisti og tók þátt í miðilsfundum í Reykjavík á þessum árum. Þegar ég var að alast upp risu oft hárin á handleggjunum á manni við að heyra sögur hans af draugum og svipum framliðins fólks sem birtust hinum og þessum við ólíklegustu aðstæður. Það var oft ekki laust við að maður teldi sig sjá baksvipinn á einhverjum löngu látnum á leið út úr stofunni hans afa þegar sögustund af þessu tagi stóð sem hæst. En það er erfitt að sannfæra efasemdarmenn og álíka örðugt að uppræta trúna úr hugskoti hinna. Viðleitni til að ná sambandi við framliðna er talin af hinu illa í biblíunni og prestar voru lengi mjög á móti spíritismanum. Hann, líkt og álfatrúin, virðist þó kominn til að vera hjá íslensku þjóðinni. Hermann fann í honum auðugan og athyglisverðan efnivið og vann úr því einstaklega flotta skáldsögu.


Bloggfærslur 23. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband